Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp sem auðveldar greiðsluaðlögun einstaklinga orðið að lögum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Frumvarp sem auðveldar greiðsluaðlögun einstaklinga er orðið að lögum. Atkvæðagreiðsla fór fram á Alþingi laust eftir miðnætti og var frumvarpið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga sem glíma við verulega fjárhagserfiðleika. Nýju lögin taka gildi þann 1. apríl næstkomandi en um er að ræða breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.

„Breytingarnar munu snerta fjölda fólks og eru mikilvægar því með þeim eflum við velferðarþjónustu við þau sem verst standa fjárhagslega í samfélaginu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Úrræðið um greiðsluaðlögun hefur margsannað gildi sitt. Mikil þörf var engu að síður fyrir breytingarnar sem nú eru orðnar að lögum og markmið þeirra var skýrt: Að ná enn betur en áður til fólks sem stendur frammi fyrir verulegum fjárhagserfiðleikum. Ég er því stoltur og ánægður með að frumvarpið sé orðið að lögum.“

Skýrari og skilvirkari málsmeðferð

Markmið laga um greiðsluaðlögun er að gera umsækjendum kleift að endurskipuleggja fjármál sín. Einstaklingar sækja um greiðsluaðlögun hjá embætti umboðsmanns skuldara sem annast framkvæmd úrræðisins.

Með breytingunum verður úrræðið um greiðsluaðlögun að heildstæðari lausn en verið hefur og málsmeðferð verður skýrari og skilvirkari.

  • Fleiri munu geta sótt um greiðsluaðlögun en verið hefur, auk þess sem málsmeðferð vegna breytinga á samningum til greiðsluaðlögunar breytist skuldurum í hag. Það er gert til að auðvelda einstaklingum að standa í skilum við samninga sína og fá þeim breytt þegar þörf er á.

  • Í lögunum er brugðist við þeim aðstæðum sem uppi eru í þjóðfélaginu þegar greiðslubyrði veðlána fer hækkandi vegna hás vaxtastigs. Það er gert með nýju ákvæði um gjaldfrest eða lægri afborganir veðlána. Um nýmæli er að ræða þess efnis að umsjónarmanni greiðsluaðlögunar verður heimilt að leggja til í samningi um greiðsluaðlögun að greidd verði tímabundið lægri mánaðargreiðsla til greiðslu veðkrafna eða veittur sé gjaldfrestur á þeim. Tilgangur með slíkri heimild er að mæta sérstökum aðstæðum á borð við háu vaxtastigi eða tímabundnum aðstæðum eins og tekjuleysi.

  • Lögin fela einnig í sér breytingar á málsmeðferð vegna yfirveðsettra fasteigna. Einstaklingar munu geta, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, óskað eftir lækkun á veðsetningu þannig að hún miðist við markaðsverðmæti fasteignar.

  • Samkvæmt eldri lögum falla námslán utan greiðsluaðlögunar ásamt ábyrgðarskuldbindingum námslána en í nýju lögunum falla virkar kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum undir úrræðið þannig að hægt verður að kveða á um meðferð þeirra í samningi. Brýn þörf var á að greiðsluaðlögun tæki til þessara krafna þar sem engar aðrar lögbundnar lausnir eru til staðar fyrir ábyrgðarmenn sem lenda í greiðsluerfiðleikum vegna þessara skuldbindinga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum