Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2024 Matvælaráðuneytið

Aðgerðaáætlun matvælastefnu sett í samráð

Aðgerðaáætlun matvælastefnu sett í samráð - myndiStocl/shironosov

Katrín Jakobsdóttir, sem gegnir embætti matvælaráðherra nú um stundir, hefur sett í samráðsgátt aðgerðaáætlun matvælastefnu til ársins 2040.

Áætlunin nær til fimm ára og byggir á sex meginviðfangsefnum:

  • Sjálfbærni matvælaframleiðslu
  • Samfélagi
  • Fæðuöryggi
  • Matvælaöryggi
  • Þarfir neytenda
  • Rannsóknum, nýsköpun og menntun

Einnig er gert ráð fyrir að ráðist verði í fimm aðgerðir sem liggja þvert á önnur svið. Sú vinna er þegar hafin eða búið að tímasetja. Aðgerðirnar eru:

  • Söfnunarkerfi fyrir dýraleifar
  • Stöðumat markmiða um verndun líffræðilegrar fjölbreytni
  • Mótun aðgerða um neyðarbirgðahald á matvælum og nauðsynlegra aðfanga vegna matvælaframleiðslu
  • Matvælaeftirlit verði samræmt og sett undir eina stofnun
  • Árangur af stuðningi Matvælasjóðs mældur

Matvælastefnu ársins 2040 er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku til að auka verðmætasköpun í matvælaframleiðslu, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Matvælastefna Íslands og aðgerðaáætlunin eru hafðar til hliðsjónar við aðra stefnumótun innan matvælaráðuneytisins, t.d. við gerð stefnu lagareldis, sjávarútvegsstefnu og landbúnaðarstefnu.

Einnig liggur til grundvallar stefnunni stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar þar sem segir: „Íslenskur landbúnaður, sjávarútvegur og fiskeldi eru þungamiðja í innlendri matvælaframleiðslu sem verður efld á kjörtímabilinu. Með auknum áhuga á hreinum afurðum, sem framleiddar eru með endurnýjanlegri orku og grunnu kolefnisspori á Íslandi, skapast mikil sóknarfæri í framleiðslu matvæla og ýmissa hliðarafurða. Við viljum búa þessari starfsemi samkeppnishæft umhverfi til að gera henni kleift að standa enn betur undir því fjölþætta hlutverki sem hún gegnir í íslensku samfélagi, meðal annars við að skapa atvinnu og byggðafestu, auk þess að vera mikilvægur valkostur fyrir neytendur á Íslandi. Skipulag náms sem tengist matvælaframleiðslu á framhalds- og háskólastigi verður endurskoðað með það að markmiði að styrkja bæði menntun og rannsóknir.“

Aðgerðaáætlunina má nálgast hér.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum