Hoppa yfir valmynd
7. mars 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Mælti fyrir frumvarpi um fjarheilbrigðisþjónustu

Alþingi - myndHeilbrigðisráðuneytið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt frumvarpinu verður bætt inn í lögin ákvæðum um fjarheilbrigðisþjónustu, skýringum á þeirri þjónustu sem flokkast þar undir ásamt ákvæði um upplýsingaöryggi.

„Miklar framfarir hafa átt sér stað í fjar­heil­brigðis­þjónustu síðustu ár. Tæknin felur í sér margvísleg tækifæri og er mikilvægur liður í því að mæta áskorunum heilbrigðiskerfisins. Gildandi löggjöf þarf að taka mið af þeirri þróun og styðja við hana svo fjarheilbrigðisþjónusta nýtist til fulls við samskipti, greiningu, meðferð og veitingu fjölbreyttar þjónustu við sjúklinga“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Með fjarheilbrigðisþjónustu er hægt að nýta betur mannauð, efla samvinnu milli stofnana og landsvæða, auka hagkvæmni, gera þjónustu aðgengilega óháð búsetu og stuðla að nýsköpun. Með aukinni fjarheilbrigðisþjónustu má einnig auka framboð af fjölbreyttri þjónustu til að koma til móts við mismunandi þarfir sjúklinga og nýta fjölbreytta menntun og reynslu heilbrigðisstarfsmanna. Skilgreining fjarheilbrigðisþjónustu

Með frumvarpinu er lagt til að fjarheilbrigðisþjónusta verði skilgreind í lögum um heilbrigðisþjónustu „sem nýting stafrænnar samskipta- og upplýsingatækni til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma.“ Þar undir fellur:

  • Fjarsamráð: Samráð heilbrigðisstarfsfólks og miðlun heilbrigðisupplýsinga í gegnum viðeigandi og öruggan tæknibúnað.
  • Fjarvöktun: Notkun á stafrænum lausnum og tæknibúnaði í fjarvöktun á heilbrigðisástandi.
  • Myndsamtal: Rauntímasamskipti heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings með öruggum tæknibúnaði.
  • Netspjall og hjálparsími: Samskipti heilbrigðisstarfsfólks við sjúklinga í hjálparsíma eða á netspjalli sem kalla á leit upplýsinga eða skráningu upplýsinga í sjúkraskrá sjúklings.
  • Velferðartækni: Notkun á stafrænum tæknilausnum heilbrigðisþjónustu sem styðja búsetu einstaklinga í heimahúsi.

Frumvarpið og ferill málsins á Alþingi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum