Hoppa yfir valmynd
8. mars 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla starfshóps um aðgerðir varðandi offitu, holdafar, heilsu og líðan

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um málefni sem varða offitu, holdafar, heilsu og líðan og leggja til stefnumarkandi áherslur í forvörnum, heilsueflingu og meðferð hefur lokið störfum. Í skýrslu starfshópsins eru skilgreind markmið ásamt tillögum um aðgerðir með áherslu á að efla lýðheilsu og draga úr neikvæðum heilsufarslegum afleiðingum offitu án þess að valda skaða.

Starfshópurinn leggur áherslu á heildræna nálgun um heilbrigða lifnaðarhætti á öllum stigum þjóðfélagsins. Tillögur hópsins eru þríþættar og snúa í fyrsta lagi að almennum lýðheilsuaðgerðum, í öðru lagi gagnaöflun og eftirliti og í þriðja lagi að áherslum innan heilbrigðiskerfisins sem tengjast ráðgjöf og meðferð. 

Þau markmið sem starfshópurinn skilgreinir eru eftirtalin:

  • Að Ísland setji sér langtímastefnu til ársins 2034 þar sem hugað er að almennum lýðheilsuaðgerðum með áherslu á aldurshópinn 40 ára og yngri.
  • Um aukna þekkingu á orsökum og meðferð offitu meðal heilbrigðisstarfsfólks.
  • Að markvisst sé unnið gegn fitufordómum og mismunun á grundvelli holdafars meðal heilbrigðisstarfsfólks og í samfélaginu almennt.
  • Um fjölgun meðferðarúrræða fyrir einstaklinga með offitu og bætt aðgengi að þjónustu. 

Samfélagslegar breytingar meginástæða

Starfshópurinn segir eina af helstu áskorununum í umræðu um offitu vera mikla og útbreidda vanþekkingu og fordóma í samfélaginu tengda holdafari. Í ljósi þess geti reynst áskorun að ræða þá staðreynd að tíðni offitu sé að aukast. Hópurinn bendir á að samfélagslegar breytingar séu aðalástæða aukinnar tíðni offitu. Þessar breytingar þurfi að ræða á samfélagslegum grunni og ekki sé hægt að setja ábyrgðina eingöngu á einstaklinginn. Tillögur hópsins taka mið af þessu þar sem áhersla er m.a. lögð á almennar lýðheilsuaðgerðir sem tryggja aðgengi og tækifæri til heilsusamlegra lifnaðarhátta.

Skýrsla starfshópsins verður nú rýnd í heilbrigðisráðuneytinu og teknar ákvarðanir um hvernig best megi vinna að framgangi þeirra markmiða og tillagna sem þar koma fram.

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum