Hoppa yfir valmynd
12. mars 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Þing kvennanefndar SÞ: Jafnrétti kynjanna forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á þingi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. - mynd

Jafnrétti kynjanna er og hefur verið forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda, hvort sem er heima fyrir eða í alþjóðlegu samstarfi – þar á meðal í framboði Íslands til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2025-2027. Þetta kom fram í ávarpi Íslands sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, flutti á þingi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi. Guðmundur Ingi sækir þingið fyrir hönd Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

„Við trúum því staðfastlega að framsækin stefna sem miðar að því að efla jafnrétti allra kynja sé grunnurinn að samfélagi án aðgreiningar, samfélagi sem byggir á félagslegu réttlæti og friðsæld og þar sem við öllum getum dafnað,“ sagði hann.

Ráðherra hóf ávarpið á að minnast stríðsátaka sem víða geisa.

„Hugur okkar er í dag hjá öllum, þar á meðal konum og börnum, sem upplifa átök of víða á jörðinni, svo sem á Gaza, í Afganistan, Súdan og Úkraínu,“ sagði hann.

Þá undirstrikaði hann að jafnrétti allra kvenna og stúlkna væru grundvallarmannréttindi. Að auka jafnrétti kynjanna væri ekki einungis hið rétta að gera heldur væri það klók hagfræði. Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna og stúlkna um allan heim væri lykillinn að því að takast á við fátækt í heiminum.

Ráðherra dró sömuleiðis fram það bakslag sem orðið hefur varðandi jafnréttismál, kynfrelsi kvenna og frjósemisréttindi.

„Við verðum að berjast gegn þessari þróun og vinna saman að því að tryggja mannréttindi kvenna, stúlkna og annarra einstaklinga um allan heim,“ sagði hann.

Þingið sett formlega í gær

68. þing kvennanefndarinnar stendur í tvær vikur og var formlega sett í gær. Norðurlöndin ræddu þá meðal annars sérstaklega um jafnréttismál á viðburði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í fyrri viku þingsins er ráðherradagskrá og sérfræðingafundir en í þeirri síðari fara fram samningaviðræður um niðurstöður þingsins.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson flytur ávarp Íslands á 68. þingi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York.

Ávarp Íslands flutt í þingsalnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum