Hoppa yfir valmynd
3. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Aukin samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum

Árlegt samráð Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál fór fram í Keflavík dagana 2. til 3. maí. Aukin varnarsamvinna ríkjanna, stuðningur við Úkraínu gegn árásarstríði Rússlands, ástandið í Miðausturlöndum og öryggi á norðurslóðum voru á meðal helstu umræðuefna fundarins.

Á fundinum var rætt um undirbúning og markmið leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður í Washington í tilefni af 75 ára afmæli bandalagsins og áframhaldandi stuðning bandalagsríkja við varnir Úkraínu. Enn fremur var rætt um þróun öryggismála á norðurslóðum, víðtæk áhrif stríðsins sem nú geisar fyrir botni Miðjarðarhafs, málefni Asíu, og sammælst um áframhaldandi náið samráð um þessi mál. 

Ísland og Bandaríkin áréttuðu mikilvægi gagnkvæmra varnarskuldbindinga og vaxandi samstarfs um eftirlit og aðgerðir á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Rætt var um samvinnu ríkjanna í tengslum við kafbátaleit, þjónustuheimsóknir bandarískra kafbáta, uppbyggingu á varnarinnviðum og varnaræfingar. Aukinn viðbúnaður og eftirlit á Norður-Atlantshafi tryggir sameiginlega öryggishagsmuni ríkjanna og annarra bandalagsríkja. 

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, fór fyrir sendinefnd Íslands en auk utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins í Washington tóku fulltrúar forsætisráðuneytisins, Landhelgisgæslu Íslands og ríkislögreglustjóra þátt í samráðinu. Fulltrúar Bandaríkjastjórnar voru frá utanríkisráðuneyti, varnarmálaráðuneytinu og sendiráðinu í Reykjavík.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum