Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2001 Forsætisráðuneytið

Gengið til samninga við HSBC Investment Bank

Reykjavík
17. ágúst 2001

Fréttatilkynning

English

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, f.h. viðskiptaráðherra, hefur ákveðið að ganga til samninga við HSBC Investment Bank um þjónustu vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutabréfum ríkisins í Landsbanka Íslands. Ákvörðun nefndarinnar byggir á mati á innsendum tilboðum vegna verkefnisins en alls bárust sex gild tilboð í verkefnið. Við samanburð á tilboðum var litið til eftirfarandi atriða:

- Alþjóðlegrar reynslu á fjármálamarkaði.
- Reynslu einstakra ráðgjafa.
- Tillagna um fyrirkomulag ráðgjafarinnar.
- Tillagna um fyrirkomulag verkefnisins.
- Tilboðsfjárhæðar.
- Þekkingar á íslenskum fjármálamarkaði.

Þau tilboð sem bárust voru vel útfærð og á bak við þau stóðu öflug og stór fyrirtæki með reynslu á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Með tilliti til fyrrgreindra atriða var tilboð HSBC Investment Bank hagstæðast og hefur nefndin því ákveðið að ganga að því tilboði. HSBC Investment Bank hefur yfir að ráða yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu á sviði fjármálaþjónustu og er í fremstu röð fjárfestingarbanka í heiminum í dag. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun á næstu dögum ganga til samninga við fyrirtækið og í framhaldi af því verður hafinn undirbúningur að sölu á hlutabréfum ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf., m.a. nánari útfærsla á skilmálum sölunnar. Undirbúningur og framkvæmd sölunnar verður unninn í samstarfi við Landsbankann.

Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 18. júní sl. er áformað að selja umtalsverðan hlut af eignarhlut ríkisins í bankanum til kjölfestufjárfestis að undangengnu forvali og lokuðu útboði. Með umtalsverðum hlut er átt við a.m.k. þriðjung hlutafjár í félaginu og er ráðgert að salan fari fram fyrir árslok.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum