Hoppa yfir valmynd
6. júní 2002 Forsætisráðuneytið

Saga Stjórnarráðs Íslands

Saga Stjórnarráðs Íslands

Árið 2004 eru eitt hundrað ár liðin frá stofnun Stjórnarráðs Íslands. Þegar Stjórnarráðið varð 60 ára ákvað forsætisráðuneytið að láta rita sögu þess á tímabilinu 1904–1964 og var Agnar Klemens Jónsson, þáverandi ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, fenginn til þess verks. Kom ritið út í tveimur bindum árið 1969, rúmlega 1000 blaðsíður, undir titlinum Stjórnarráð Íslands 1904–1964. Verk Agnars er grundvallarrit um sögu stjórnmála, stjórnsýslu og Stjórnarráðsins á fyrri hluta 20. aldar og er löngu uppselt, enda hefur það verið mikið notað við kennslu í Háskóla Íslands, af starfsmönnum í stjórnsýslu og á Alþingi.
Í tilefni af því að aldarafmæli Stjórnarráðsins er framundan ákvað forsætisráðuneytið að kominn væri tími til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og láta rita sögu Stjórnarráðsins frá 1964 til 2004. Forsætisráðherra skipaði því ritnefnd til þess að sjá um undirbúning málsins. Í nefndinni eru Björn Bjarnason menntamálaráðherra, formaður, Heimir Þorleifsson sagnfræðingur og Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður. Hefur nefndin séð um undirbúning málsins og réð síðar Sumarliða R. Ísleifsson sagnfræðing til þess að ritstýra verkinu og rita hluta þess.

Stefnumörkun
Ritnefndin tók þá ákvörðun að láta semja ítarlegt yfirlitsrit þar sem unnt væri að nálgast á aðgengilegan hátt upplýsingar um umgjörð, stefnu, starfshætti, uppbyggingu og framkvæmdir Stjórnarráðs Íslands á tímabilinu 1964–2004. Ekki er unnt að fjalla um allt er Stjórnarráðið varðar á þessu tímabili og því tók ritstjórnin þá ákvörðun að fjalla einkum um tvö meginsvið. Í fyrsta lagi lög, starfshætti og uppbyggingu Stjórnarráðsins og í öðru lagi sögu ríkisstjórna sem hafa setið á umræddu tímabili.

Í fyrstnefnda þættinum verður fjallað um lagasetningu um Stjórnarráðið á tímabilinu og ýmis lög sem tengjast Stjórnarráði Íslands og stjórnsýslu náið, svo og uppbyggingu og starfshætti Stjórnarráðs Íslands frá því á sjöunda áratugnum og fram yfir aldamótin 2000. Nánar tiltekið er um að ræða starfshætti ríkisstjórna, uppbyggingu og starfshætti innan ráðuneyta, svo og hugmyndir um hlutverk, stærð og stöðu Stjórnarráðsins.
Saga ríkisstjórna á tímabilinu 1964–2004 verður í fjórum hlutum. Fjallað verður um stjórnarmyndanir á tímabilinu, um gengi ríkisstjórna og samskipti innan þeirra, helstu einkenni stjórnarstefnu á hverjum tíma og veigamestu verkefni og málaflokka sem einstakar ríkisstjórnir hafa glímt við. Ekki er gert ráð fyrir að fjalla um einstök fagráðuneyti.

Loks er gert ráð fyrir að í ritinu verði skrár um ríkisstjórnir og ráðherra sem hafa setið á þessu tímabili, svo og ráðuneytisstjóra og aðstoðarfólk ráðherra. Þá má geta þess að stefnt er að því að halda málþing um einstaka þætti stjórnarráðssögunnar á ritunartímanum.

Höfundar
Eftirtaldir fræðimenn munu vinna að ritun verksins: Ásmundur Helgason lögfræðingur og sagnfræðingur, Ómar Kristmundsson stjórnsýslufræðingur og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor munu fjalla um lagasetningu er varðar Stjórnarráðið, svo og uppbyggingu, skipulag og starfshætti innan Stjórnarráðsins. Fjórir fræðimenn munu fjalla um sögu ríkisstjórna á tímabilinu: Ólafur Rastrick sagnfræðingur um árin frá 1963–1971, Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur um tímabilið frá 1971–1983, Sigríður Þorgrímsdóttir sagnfræðingur um árin frá 1983–1991 og Jakob F. Ásgeirsson stjórnmálafræðingur um árin frá 1991.

Umfang verksins
Stefnt er að því að verkið verði í þremur bindum. Hvert bindi, með myndum og skrám, verði á milli 400 og 500 síður og verkið í heild því á bilinu 1200–1500 blaðsíður. Ætlunin er að Sögufélagið gefi verkið út líkt og Stjórnarráðssögu Agnars Kl. Jónssonar á sínum tíma.

Stefnt er að því að í bókunum verði mikið af myndum, einkum þeim hluta sem fjallar um sögu ríkisstjórnanna. Þegar brot á bókunum er valið og útlit hannað verður hvorttveggja haft að leiðarljósi, að myndefni njóti sín vel og bækurnar verði þægilegar í meðförum.

Allir höfundar eiga að hafa skilað af sér handriti fyrir árslok 2002 og stefnt er að því að verkið verði komið út þann 1. febrúar 2004, á 100 ára afmæli Stjórnarráðsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum