Hoppa yfir valmynd
11. september 2002 Forsætisráðuneytið

Viðræður við Samson ehf. og afsagnarbréf Steingríms Ara

Frétt nr.: 33/2002

Viðræður við Samson ehf. og afsagnarbréf Steingríms Ara

Með vísan til fréttatilkynningar forsætisráðuneytisins nr. 31/2002 dags. í dag vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Sá söluferill viðskiptabankanna sem nú stendur yfir hófst með birtingu auglýsingar í fjölmiðlum 10. júlí sl. Í upphafi texta auglýsingarinnar kom fram að verið væri að óska eftir "tilkynningum frá áhugasömum fjárfestum um kaup á a.m.k. 25% hlut í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Leitað er eftir fjárfesti, innlendum eða erlendum, með það að markmiði að efla bankann og samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði. Í tilkynningunni skal gera grein fyrir fjárhagsstöðu, þekkingu og reynslu á fjármálamarkaði, eignarhlut sem viðkomandi óskar eftir kaupum á, hugmyndum um staðgreiðsluverð og áformum varðandi rekstur þess banka sem áhugi er á". Fimm aðilar skiluðu inn tilkynningum og voru þrír valdir til frekari viðræðna um kaup á Landsbanka Íslands hf. Að undanförnu hefur framkvæmdanefnd um einkavæðingu ásamt HSBC bankanum í London farið yfir allar innsendar upplýsingar um þá þrjá aðila sem viðræður hafa staðið við. Eins og kemur fram í fyrrnefndri auglýsingu eru nokkrir þættir sem hafa áhrif á ákvörðun um við hvern skuli gengið til viðræðna við. Nú hefur ákvörðun verið tekin og Samson eignarhaldsfélagi ehf. tilkynnt um það.

Í framkvæmdanefnd um einkavæðingu eru fjórir fastir fulltrúar auk tveggja fulltrúa viðskiptaráðuneytisins þegar verið er að fjalla um sölu bankanna. Utan Steingríms Ara Arasonar voru allir þessir fulltrúar í nefndinni sammála um niðurstöðuna. Afstaða nefndarinnar byggðist á yfirferð og mati HSBC á gögnum málsins og þeirri niðurstöðu bankans að ganga ætti til samninga við Samson ehf. Í ráðherranefnd um einkavæðingu eru fjórir ráðherrar. Full samstaða var í ráðherranefndinni um þessa ákvörðun.

Hjálagt fylgir afrit bréfs Steingríms Ara Arasonar til forsætisráðherra dags. í gær. Vegna ávirðinga í bréfi Steingríms Ara hefur forsætisráðuneytið óskað eftir við Ríkisendurskoðun að stofnunin yfirfari þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í málinu.

Reykjavík, 11. september 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum