Hoppa yfir valmynd
3. september 2004 Forsætisráðuneytið

Samstarfssamningur vegna Gljúfrasteins

Samstarfssamningur á milli Mosfellsbæjar og forsætisráðuneytis varðandi starfsemi Gljúfrasteins – húss skáldsins

Samningurinn er gerður á grundvelli yfirlýsingar um samráð um málefni fræðaseturs Halldórs Laxness í Mosfellsbæ og safns Halldórs Laxness á Gljúfrasteini, dags. 21. apríl 2002. Samningurinn vísar einnig í rekstrarforsögn sem stjórn Gljúfrasteins hefur samþykkt þar sem greinir frá framtíðarsýn safnsins og uppbyggingu þess.

1. gr.

Markmið samningsins er að efla Gljúfrastein og umhverfi sem minningarsetur um Halldór Laxness og gera nánasta umhverfi safnsins að útivistarperlu fyrir almenning.

2. gr.

Mosfellsbær mun leggja Gljúfrasteini – húsi skáldsins fjárstyrk sem nemur fasteignagjöldum af Gljúfrasteini og notkun safnsins á heitu vatni.

3. gr.

Mosfellsbær mun annast fyrir safnið án endurgjalds umhirðu lóðar safnsins, snjómokstur frá þjóðvegi og stígagerð í næsta umhverfi Gljúfrasteins samkvæmt nánari útfærslu samningsaðila.

4. gr.

Mosfellsbær útvegar Gljúfrasteini afnot af geymslu undir ýmsa muni safnsins þar til framtíðarlausn er fundin. Mosfellsbær mun upplýsa um hvernig geymslur eru í boði, allt eftir eðli muna sem óskað er eftir geymslu á. Gljúfrasteinn mun taka ákvörðun um tryggingar geymslumuna meðan á geymslu stendur umfram þær tryggingar sem Mosfellsbær getur boðið upp á.

5. gr.

Nemendur og kennarar í grunnskólum Mosfellsbæjar skulu eiga kost á fræðslu um ævi og störf Halldórs Laxness á Gljúfrasteini án endurgjalds.

6. gr.

Mosfellsbær mun hafa forgöngu um gerð deiliskipulags á nánasta umhverfi Gljúfrasteins í samráði við stjórn Gljúfrasteins.

7. gr.

Mosfellsbær, forsætisráðuneytið og stjórn Gljúfrasteins munu eiga með sér reglubundið samráð um framtíðarskipulag, uppbyggingu móttökuhúss, bílastæðis og annað er tengist þróun starfseminnar á Gljúfrasteini sem miðar að því að varðveita minningu Halldórs Laxness og byggja upp ferðamannastað í Mosfellsbæ.

Gljúfrasteini 2. september 2004

Ólafur Davíðsson
ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis

Ragnheiður Ríkharðsdóttir
bæjarstjóri Mosfellsbæjar



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum