Hoppa yfir valmynd
17. september 2004 Forsætisráðuneytið

Stjórnsýsluréttur fyrir starfsmenn stjórnsýslu ríkisins

Stjórnsýsluréttur fyrir starfsmenn stjórnsýslu ríkisins
-námskeið í október og nóvember 2004

Forsætisráðuneytið mun í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands bjóða upp á sex vikna námskeið í október og nóvember nk. um stjórnsýslulögin og stjórnsýslurétt fyrir þá starfsmenn ríkisins sem koma að meðferð mála og undirbúningi ákvarðana í stjórnsýslunni. Námskeiðið getur einnig nýst starfsfólki sveitarfélaga og stendur þeim opið. Nemendur munu hlýða á fyrirlestra, taka þátt í umræðum, lesa kennslurit og vinna heimaverkefni. Umsjónarmaður og aðalkennari verður Páll Hreinsson lagaprófessor.

Kennt verður í alls 36 klukkustundir, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 13.15 - 16.00. Námskeiðið hefst 5. október og því lýkur 11. nóvember. Þátttökugjald er kr. 39.000.-. Innifalin eru ljósrituð kennslugögn, en nemendur afli sjálfir fræði- og kennslurita, sem líklega eru flest til hjá viðkomandi stofnun. (sjá lista hér að neðan). Skráning fer fram til og með 30. september á netinu: http://www.stjornsyslustofnun.hi.is/page/stjornsyslurettur

Allar nánari upplýsingar veitir Margrét S. Björnsdóttir í síma 5254254 eða í tölvupósti: [email protected]

Á námskeiðinu verður farið yfir málsmeðferðarreglur sem notaðar eru við töku stjórnvaldsákvarðana á fyrsta stjórnsýslustigi. Helstu lög sem kennd verða eru: a) Stjórnsýslulög nr. 37/1993. b) Upplýsingalög nr. 50/1996. c) Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. d) Lög nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál. e) Óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins.

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning og nái tökum á helstu réttarreglum um meðferð stjórnsýslumála þar sem taka á stjórnvaldsákvarðanir. Því meginmarkmiði má skipta upp í tvö undirmarkmið:

1. Þekking / skilningur: Að nemendur þekki meginhugtök stjórnsýsluréttarins. Kunni þær meginreglur sem stjórnsýslukerfi ríkisins er byggt á. Kunni þær málsmeðferðarreglur sem fylgja ber við töku stjórnvaldsákvarðana. Öðlist innsýn í meginvandamál stjórnsýslunnar við meðferð stjórnsýslumála og geri sér grein fyrir þeim leiðum sem eru færar til þess að leysa þau.

2. Færni / leikni: Nemendur nái valdi á því að beita málsmeðferðarreglum stjórnsýslu­réttarins. Nemendur gera raunhæf verkefni sem farið verður yfir í tíma. Nemendum ber að taka virkan þátt í umræðum í tímum.

Námsefnislisti:

1. Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin – skýringarrit, 1994.

2. Páll Hreinsson: Upplýsingalögin – kennslurit, 1996.

3. Starfsskilyrði stjórnvalda. Reykjavík 1999.

4. Lög um rafræna stjórnsýslu ásamt greinargerð. Reykjavík 2003.

5. Páll Hreinsson: Valdmörk stjórnvalda. Kennslurit. Reykjavík 2004.

6.. Fjölrit sem lögð verða fram í tímum og eru innifalin í verði námskeiðsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum