Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2002 Forsætisráðuneytið

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Prag

21.11.2002

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins hófst í Prag í dag, þann 21. nóvember. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sitja fundinn fyrir Íslands hönd.

Meginefni fundarins er aðlögun bandalagsins að nýjum ógnum og breyttum aðstæðum. Í því sambandi fögnuðu leiðtogarnir sérstaklega inngöngu sjö nýrra aðildarríkja, Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu í bandalagið. Þar með eru aðildarríki bandalagsins orðin 26 að tölu.

Þá lögðu leiðtogarnir áherslu á aukna getu bandalagsins til að bregðast við nýjum ógnum og á áframhaldandi samvinnu bandalagsins við samstarfsríki þess. Lögð var áhersla á mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið og grundvallar skuldbindingar bandalagsins um að annast sameiginlegar varnir aðildarríkjanna staðfestar. Þá ítrekuðu leiðtogarnir að bandalagið myndi áfram standa vörð um frelsi og lýðræði í aðildarríkjunum gegn ógnum utan frá.

Á fundinum var samþykkt sérstök ályktun um Írak, þar sem lýst var yfir fullum stuðningi og aðstoð við framkvæmd ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna
nr. 1441 um upprætingu gereyðingavopna í Írak. Áréttað var að það muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Írak ef þeir halda áfram að brjóta í bága við skilyrði Öryggisráðsins.

Á morgun munu leiðtogarnir funda á vettvangi Evró-Atlantshafssamvinnuráðsins (EAPC) en það er vettvangur 46 ríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess.

Yfirlýsingu leiðtogafundarins og annað efni honum tengt má finna á vefsíðu NATO, www.nato.int/.


Í Reykjavík, 21.nóvember 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum