Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2005 Forsætisráðuneytið

Auglýsing frá Kristnihátíðarsjóði 2005

Kristnihátíðarsjóður

Auglýsing

Kristnihátíðarsjóður, sem starfar samkvæmt lögum nr. 12 frá 28. febrúar 2001, var stofnaður til að minnast þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn á Íslandi. Hlutverk sjóðsins er tvíþætt:

  • að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn;
  • að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.
    Starfstími sjóðsins er til ársloka 2005. Ríkissjóður leggur sjóðnum til 100 m.kr. fyrir hvert starfsár.

Stjórn Kristnihátíðarsjóðs auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Í samræmi við hlutverk sjóðsins verða styrkir veittir til tveggja sviða: menningar- og trúararfs og fornleifarannsókna. Á árinu 2005 verður 60% af úthlutunarfé sjóðsins veitt til fornleifarannsókna en 40% til menningar- og trúararfs.

Þeir sem fengu styrk úr sjóðnum á síðastliðnu starfsári hans þurfa að sækja um á ný, óski þeir eftir áframhaldandi stuðningi Kristnihátíðarsjóðs.

Menningar- og trúararfur

Sjóðurinn veitir styrki til að efla þekkingu og vitund um menningar- og trúararf þjóðarinnar. Einkum verður litið til margvíslegra verkefna er tengjast almenningsfræðslu, umræðum og rannsóknum og skulu verkefnin m.a.

a. miðla fróðleik um siðferðis- og trúarhugmyndir sem mótað hafa þjóðina, t.d. með gerð fræðslu- og námsefnis;

b. stuðla að umræðum um lífsgildi þjóðarinnar, siðferði og framtíðarsýn, t.d. fyrir tilstilli mennta- og menningarstofnana eða fjölmiðla; og

c. efla rannsóknir á menningar- og trúararfi íslensks samfélags.

Sjóðurinn mun veita forgang þeim framhaldsverkefnum sem hlutu styrk við síðustu úthlutun, enda uppfylli þau kröfur um framvindu og árangur.

Fornleifarannsóknir

Sjóðurinn veitir styrki til fornleifarannsókna, bæði uppgraftar og skráningar fornleifa, auk kynningar á niðurstöðum rannsókna. Stjórn sjóðsins leggur áherslu á að árangur rannsóknanna verði aðgengilegur almenningi (plaköt, margmiðlunarefni, sýning muna og jafnvel rústa). Einkum verður litið til rannsóknarverkefna er varða

a. mikilvæga sögustaði þjóðarinnar, m.a. Þingvelli, Skálholt og Hóla í Hjaltadal;

b. aðra staði tengda sögu kristni á Íslandi, m.a. klaustur og kirkjustaði;

c. aðra mikilvæga sögustaði, s.s. verslunarstaði, miðaldabæi og þingstaði.

Sjóðurinn mun að þessu sinni eingöngu styðja þau verkefni sem hlutu styrk við síðustu úthlutun, enda uppfylli þau kröfur um framvindu og árangur. Einnig verður tekið tillit til samvinnu umsækjenda við innlendar og erlendar rannsóknarstofnanir eða fræðimenn og áhersla verður lögð á þjálfun og handleiðslu ungra vísindamanna á sviði fornleifafræði á Íslandi.

Umsóknir

Gerðar eru skýrar faglegar og fræðilegar kröfur til umsækjenda. Miðað er við að verkefnin, sem styrkt eru við næstu úthlutun, verði unnin á árinu 2006. Umsóknir skulu taka til eins árs í senn en Kristnihátíðarsjóður mun styrkja verkefni sem unnin eru á árinu 2006. Ekki verða veittir styrkir til verkefna sem þegar er lokið. Vakin er sérstök athygli á að hér er um lokaúthlutun að ræða til allra verkefna, þar sem starfstíma sjóðsins er nú að ljúka.

Einungis verður tekið við umsóknum á þar til gerðum eyðublöðum. Þau má finna á vefsíðu forsætisráðuneytis (www.raduneyti.is, sjá forsætisráðuneyti, Kristnihátíðarsjóður). Enn fremur má nálgast eyðublöð á skrifstofu ráðuneytisins, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg (sími 545 8400, netfang [email protected]).

Umsóknarfrestur er til 16. september 2005 og verður úthlutað úr sjóðnum hinn 1. desember 2005. Umsóknir til Kristnihátíðarsjóðs skal senda forsætisráðuneytinu, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, 150 Reykjavík.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum