Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2005 Forsætisráðuneytið

Fundur forsætisráðherra með forseta Tékklands

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra átti í morgun fund með Vaclav Klaus, forseta Tékklands, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, en forsetinn er sem kunnugt er í opinberri heimsókn á Íslandi. Á fundinum ræddu þeir samskipti ríkjanna og jafnframt viðskipti landanna tveggja sem þeir voru sammála um að auka enn frekar.

Þá ræddu þeir Halldór og Klaus um gott samstarf ríkjanna í ýmsum alþjóðlegum stofnunum, t.d. Sameinuðu þjóðunum og Norður-Atlantshafsbandalaginu. Voru þeir sammála um að reyna yrði til þrautar á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í næsta mánuði að komast að samkomulagi um leiðir til að bæta starfshætti og skipulag Sameinuðu þjóðanna.

Nokkuð var rætt um samvinnu Evrópuríkja á vettvangi Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu, framtíð Evrópusambandsins miðað við niðurstöður í þjóðaratkvæðagreiðslum um stjórnarskrársáttmálann og frekari stækkun, auk þess sem nauðsynlegt væri að auka samstarf við ríki Balkanskaga og við Úkraínu.

Forsætisráðherra heldur svo hádegisverðarboð til heiðurs forseta Tékklands á Þingvöllum í dag.

 

Í Reykjavík, 23. ágúst 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum