Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2005 Forsætisráðuneytið

Norræna ráðherranefndin opnar upplýsingaskrifstofu í Kaliningrad

F r é t t a t i l k y n n i n g
Nr.: 6/2005

Samkomulag hefur náðst milli rússneskra yfirvalda og Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn um að sett verði á laggirnar norræn upplýsingaskrifstofa í Kaliningrad. Ráðherranefndin átti frumkvæði að þessu máli en unnið hefur verið að því með hléum frá árinu 2000. Ráðherranefndin hefur starfrækt upplýsingaskrifstofu í Pétursborg frá 1995, en hún er auk þess með útibú í Arkhangelsk, Petrozavodsk og Murmansk. Sérstök lega Kaliningrad milli Litháens í austri og Póllands í vestri gerir svæðið í senn mikilvægt og áhugavert fyrir starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á grannsvæðum Norðurlanda í austri. Skrifstofan í Pétursborg hefur reynst norrænu samstarfi í Rússlandi mikilvæg lyftistöng og greitt fyrir aðkomu Norðurlanda að mörgum þjóðþrifaverkefnum á svæðinu. Má þar t.d. nefna skolphreinsistöð sem opnuð var í Pétursborg í september sl., en þar er um að ræða eitt umfangsmesta verkefni Norræna fjárfestingarbankans í Rússlandi. Norræna ráðherranefndin væntir þess nú að með tilstyrk nýju skrifstofunnar verði unnt að vinna að svipuðum verkefnum í Kaliningrad, en þar er mikil þörf fyrir uppbyggingu á ýmsum sviðum.

Stefnt er að því að samkomulag Norrænu ráðherranefndarinnar og rússneskra stjórnvalda verði undirritað í Moskvu nú í desember af varautanríkisráðherra Rússlands, Vladimir Titov, og sendiherra Dana í Moskvu, Per Carlsen. Við sama tækifæri verður undirritað samkomulag um að styrkja í sessi skrifstofur ráðherranefndarinnar í Arkhangelsk, Petrozavodsk og Murmansk.

 


                                                                                                                                           Reykjavík 29. nóvember 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum