Hoppa yfir valmynd
19. desember 2005 Forsætisráðuneytið

Haustfundur Vísinda- og tækniráðs - 19. desember 2005

Sjötti fundur Vísinda- og tækniráðs var haldinn í dag, 19. desember 2005. Formaður ráðsins er Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, en auk hans sitja í ráðinu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Árni M. Matthiesen, fjármálaráðherra, Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra. Auk þess eiga sæti í ráðinu 14 fulltrúar vísinda, tækni og atvinnulífs og starfa þeir í tveimur starfsnefndum ráðsins: Vísindanefnd sem er undir forsæti Hafliða P. Gíslasonar, prófessors, og tækninefnd sem Hallgrímur Jónasson, forstjóri Iðntæknistofnunar stýrir.

Hagstæð umgjörð atvinnulífsins, góð menntun, áræðni, rannsóknir og þróunarstarfsemi hefur orðið fyrirtækjum hvatning til útrásar. Samkeppnisstaða Íslands er sterkari nú en nokkru sinni fyrr. Fjölgað hefur hæfu og vel menntuðu fólki í atvinnulífinu. Rannsóknar- og þróunarstarfi hefur vaxið ásmegin og skilar það góðum árangri á mörgum sviðum. Menntun, rannsóknir og öflugt frumkvöðlastarf skipta miklu fyrir áframhaldandi hagsæld í landinu.

Þrátt fyrir að staðan sé góð er hún að vissu leyti viðkvæm. Halda þarf hátæknifyrirtækjum í landinu og því skiptir farsæl hagstjórn miklu um framhaldið. Leggja þarf meiri áherslu á örugg fjarskipti og hagkvæma gagnaflutninga samtímis greiðum aðgangi að alþjóðlegum gagnanetum sem skipta miklu í alþjóðlegri samkeppni.

Hagnýting hátækniþekkingar getur haft mikil áhrif á efnahagsþróun hér á landi á næstu árum. Brýnt er í vaxandi alþjóðlegri samkeppni að atvinnulífið, háskólarnir og stjórnvöld taki höndum saman um eflingu rannsóknatengds framhaldsnáms sem stenst alþjóðlegar kröfur.

Hér fara á eftir helstu ályktanir sem Vísinda- og tækniráð samþykkti á fundi sínum:

  • Mikilvægt er að áform um sameiningu rannsóknarstofnana nái fram að ganga enda auka þau faglega breidd og getu stofnana til rannsókna, þróunarvinnu og þjálfunar vísindamanna í samvinnu við fyrirtæki og háskóla.
  • Hagsmunaaðilar eru hvattir til að samræma áform um uppbyggingu þekkingarþorps á Vatnsmýrarsvæðinu.
  • Áfram þarf að auka samfellu í stuðningi opinberra samkeppnissjóða við verkefni sem spanna allt frá grunnrannsóknum til þróunarvinnu í þágu nýsköpunar. Einnig þurfa fjárveitingar til opinberrar rannsóknarstarfsemi að tengjast þeim markmiðum sem stefnt er að á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Ráðið hvetur til þess að hlutverk Rannsóknanámssjóðs verði skoðað.
  • Fagnað er góðri útkomu Háskóla Íslands samkvæmt úttektum. Það styður þá sýn forsvarsmanna skólans að með öflugri rannsóknarstarfsemi skipi hann sér hóp með bestu erlendu háskólum á þeim sviðum þar sem styrkur hans er mestur og efli jafnframt tengsl sín við íslenskt atvinnulíf og þjóðfélag.
  • Mikilvægt er að efla doktorsnám hér á landi. Ráðið hvetur menntamálaráðherra til að vinna að stefnumótun á þessu sviði. Háskólar eru hvattir til þess að móta sér skýra stefnu um rannsóknir og framhaldsnám með hliðsjón af breytingum á starfsumhverfi þeirra.
  • Mikilvægt er að búa íslenskum fyrirtækjum þau skilyrði hér á landi að þau efli og auki rekstur sinn. Efling Nýsköpunarsjóðs er liður í því að koma sprotafyrirtækjum yfir erfiða hjalla. Ráðið beinir því til viðkomandi ráðherra að vinna að eflingu hátækniiðaðar og sprotafyrirtækja.
  • Efling rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar sem byggist á sérstöðu í héraði er líkleg til verðmætasköpunar á landsbyggðinni og auki því samkeppnishæfni Íslands.
  • Því er beint til iðnaðarráðherra að fylgjast með og taka þátt í tæknilegri þróun nýrra orkubera í samgöngum.
  • Hlutaðeigandi ráðuneyti eru hvött til að undirbúa tillögur um viðbrögð við breytingum sem eru að verða á fjármögnun og þátttöku í alþjóðasamstarfi sem Íslendingar eiga aðild að.
  • Þess er vænst að greinargerð umhverfisráðherra sem unnið er að í samráði við önnur ráðuneyti um rannsóknir á loftlagsbreytingum verði kynntar á vorfundi ráðsins 2006.
  • Því er beint til samgönguráðuneytisins í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti að leita leiða til að uppfylla þarfir vísindamanna fyrir örugga gagnaflutninga á hagkvæmu verði.
  • Menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra og iðnaðarráðherra eru hvattir til að láta gera úttekt á framtíðarmöguleikum á sviði heilbrigðisrannsókna og marka í framhaldinu stefnu til að bæta heilbrigðisþjónustuna og efla nýsköpun á þessu sviði.
  • Mikilvægt er að viðfangefni á sviði menntarannsókna tengist stefnumótun og niðurstöðurnar nýtist við umbætur í skólastarf .

 

Reykjavík, 19. desember 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum