Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2006 Forsætisráðuneytið

Nefnd til að skoða hátt matvælaverð á Íslandi

Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og samtaka bænda til að fjalla um helstu orsakaþætti hás matvælaverðs á Íslandi og gera tillögur sem miða að því að færa matvælaverð nær því sem gengur og gerist í helstu nágrannaríkjunum.

Forsætisráðherra hefur skipað Hallgrím Snorrason, hagstofustjóra, formann nefndarinnar. Auk hans sitja í nefndinni Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, tilnefndur af fjármálaráðherra, Jónína S. Lárusdóttir, skrifstofustjóri, tilnefnd af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri, tilnefndur af landbúnaðarráðherra, Axel Hall, hagfræðingur, tilnefndur af utanríkisráðherra, Stefán Úlfarsson hagfræðingur tilnefndur af ASÍ, Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands, Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Halldór B. Þorbergsson, hagfræðingur, tilnefndur af Viðskiptaráði Íslands og Elín Björg Jónsdóttir, tilnefnd af BSRB.

Ritari nefndarinnar verður Fjóla Agnarsdóttir, forsætisráðuneyti. Með nefndinni starfa einnig Rósmundur Guðnason og Guðrún Jónsdóttir, Hagstofu Íslands.

Þess er óskað að nefndin hafi í starfi sínu samráð við hagsmunasamtök, fulltrúa framleiðenda og helstu viðskiptaaðila.

Nefndinni er ætlað að skila tillögum fyrir mitt ár 2006 þannig að unnt verði að undirbúa hugsanlegar lagabreytingar til framlagningar á Alþingi næsta haust.

 


                                                                                                     Reykjavík 16. janúar 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum