Hoppa yfir valmynd
27. júní 2006 Forsætisráðuneytið

Sérstakar aðgerðir til þess að draga úr þenslu

Í framhaldi af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins í síðustu viku er mikilvægt að ríkið stuðli að því með ótvíræðum hætti að markmið um hjöðnun verðbólgu gangi eftir sem fyrst. Þótt svigrúmi ríkisins í þeim efnum séu takmörk sett er ljóst, eins og alþjóðlegar stofnanir og matsfyrirtæki hafa raunar bent á að undanförnu, að unnt er með aðgerðum af hálfu hins opinbera að hafa bæði bein og óbein áhrif í þá átt að draga úr þeirri þenslu sem nú ríkir í efnahagslífinu. Má í því sambandi nefna bæði framkvæmdir hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, og útlán Íbúðalánasjóðs.


Með hliðsjón af ofangreindu hefur ríkisstjórnin samþykkt eftirfarandi að tillögu forsætisráðherra:


  1. Að frá og með 1. júlí n.k. og þar til annað verður ákveðið lækki lánshlutfall Íbúðalánasjóðs tímabundið úr 90% í 80% og hámarkslán úr 18 milljónum króna í 17 milljónir króna. Þá verði lánafyrirgreiðsla Íbúðalánasjóðs til íbúðakaupenda og húsbyggjenda takmörkuð á þann veg að sami aðili geti ekki samtímis átt fleiri en eina íbúð sem á hvíla lán frá sjóðnum nema við sérstakar aðstæður.

  2. Að fresta útboðum og upphafi nýrra framkvæmda á vegum ríkisins. Þessi aðgerð verði tímabundin en ótímasett og frekari ákvarðanir þar að lútandi m.a. háðar niðurstöðum viðræðna samkvæmt 3. lið.

  3. Að óska eftir viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga og stærstu sveitarfélög landsins til að fara yfir fjárfestingaráætlanir sveitarfélaganna með það að markmiði að dregið verði úr fjárfestingum þeirra á þessu ári og því næsta. Stór samstarfsverkefni ríkis og Reykjavíkurborgar verði skoðuð sérstaklega.

                                                                                                    

 

                                                                                                            Reykjavík 27. júní 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum