Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2006 Forsætisráðuneytið

Íslenska ríkið afhendir Hóladómkirkju að gjöf rita- og bókasafn sr. Ragnars Fjalars Lárussonar prófasts.

Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, afhenti Hóladómkirkju á Hólahátíð í dag rita- og bókasafn sr. Ragnars Fjalars Lárussonar prófasts til varðveislu og sýningar, sem gjöf íslenska ríkisins í tilefni af 900 ára afmæli biskupsstóls og skóla að Hólum í Hjaltadal.

Forsætisráðherra undirritaði þann 9. ágúst sl., að fengnu samþykki ríkisstjórnar, samning um kaup ríkisins á safninu. Að hálfu seljenda undirritaði samninginn Herdís Helgadóttir ekkja sr. Ragnars Fjalars.

Í safninu eru 486 guðfræðirit auk ýmissa annarra merkra rita og bóka, margar hverjar prentaðar í Hólaprentsmiðju við upphaf prentlistar á Íslandi. Talið er að varla verði hér eftir völ á jafnmiklu og fágætu sýnishorni Hólaprents í einu lagi og í þessu safni sr. Ragnars Fjalars en meðal annars er um að ræða fjölda bóka frá 16., 17. og 18. öld. Margar bókanna eru ófáanlegar og af einu af fágætustu ritum í safninu má nefna Þorláksbiblíu sem prentuð var á Hólum árið 1644. Þetta safn er því sögulega og heimildarlega afar verðmætt og mikilvægt að varðveita þennan hluta þess á einum stað þar sem það er aðgengilegt bæði fræðimönnum og almenningi.

Reykjavík, 13. ágúst 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum