Hoppa yfir valmynd
9. október 2006 Forsætisráðuneytið

Tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að lækka matvælaverð o.fl.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til víðtækra aðgerða til þess að lækka matvælaverð hér á landi:

  1. Vörugjöld af innlendum og innfluttum matvælum, öðrum en sykri og sætindum, verða felld niður að fullu 1. mars 2007.
  2. Virðisaukaskattur af matvælum verður lækkaður úr 14% í 7% frá 1. mars 2007.
  3. Virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum í 14% þrepi (bækur, tímarit, blöð, húshitun, hótelgisting) verður lækkaður í 7%.
  4. Virðisaukaskattur af öðrum matvælum sem hefur verið 24,5% verður lækkaður í 7% frá sama tíma.
  5. Virðisaukaskattur af veitingaþjónustu verður lækkaður úr 24,5% í 7% frá sama tíma.
  6. Almennir tollar á innfluttum kjötvörum úr 2. kafla tollskrár verða lækkaðir um allt að 40% frá 1. mars 2007. Samhliða þessu verður áfram unnið að frekari gagnkvæmum tollalækkunum og bættum markaðsaðgangi gagnvart helstu viðskiptalöndum Íslands í milliríkjasamningum sem tryggja jafnframt útflutningshagsmuni íslensks atvinnulífs.
  7. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa ákveðið raunlækkun á heildsöluverði mjólkurvara á næstu 12 mánuðum sem verði náð með óbreyttu verði á þessum tíma, hinu sama og ákveðið var af verðlagsnefnd búvöru þann 1. janúar 2006.
  8. Áætlað er að þessar aðgerðir geti leitt til tæplega 16% lækkunar matvælaverðs og 2,3% lækkunar neysluverðsvísitölu á næsta ári. Auk þess mun ákvörðun um að lækka virðisaukaskatt á öðrum vörum og þjónustu úr 14% í 7% (bækur, hótelgisting, húshitun o.fl.) leiða til um 0,4% lækkunar í viðbót þannig að heildaráhrif þessara aðgerða eru metin til 2,7% lækkunar neysluverðsvísitölu á næsta ári. Kaupmáttur heimilanna eykst að sama skapi. Áhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin á um 7 milljarða króna m.v. heilt ár og tæplega 6 milljarða árið 2007.
  9. Með þessari lækkun væri matvælaverð á Íslandi orðið sambærilegt við meðalverð á matvælum á Norðurlöndunum miðað við upplýsingar um matvælaverð frá Evrópsku hagstofunni (Eurostat).
  10. Verðlagseftirlit almennings er mjög mikilvægt til að tryggja framgang þeirra kjarabóta sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið. Miklu skiptir að ekki verði hækkanir á almennu matvöruverði á næstu mánuðum þangað til ákvarðanir ríkisstjórnarinnar koma til framkvæmda. Viðskiptaráðherra mun af því tilefni mælast til þess við Neytendastofu og verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands að fylgjast mjög náið með verðlagi í smásöluverslunum á næstu mánuðum og misserum. Sömuleiðis mun viðskiptaráðherra mælast til þess við Samkeppniseftirlitið að það fylgist vel með þróun samkeppnisaðstæðna á smásölumarkaði með matvöru.   

Reykjavík 9. október 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum