Hoppa yfir valmynd
16. október 2006 Forsætisráðuneytið

Norðurlönd og ESB auka stuðning sinn við hvítrússneska námsmenn

Í samvinnu við ESB leita Norðurlönd nú leiða til að styðja enn frekar við bakið á hvítrússneskum námsmönnum. Ásamt ESB styrkir Norræna ráðherranefndin nú þegar hvítrússneska háskólann European Humanities University (EHU) sem er starfræktur í útlegð í Vilnius, höfuðborg Litháens. Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi lögðu háskólann niður árið 2004 og sviptu hann starfsleyfi og húsnæði. Þar eru nú um 350 hvítrússneskir námsmenn. Eftir forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi fyrr á þessu ári er enn sótt að námsmönnum þar í landi. Í aðdraganda kosninganna kröfðust námsmenn þess að teknir yrðu upp lýðræðislegri stjórnarhættir í landinu. Í refsingarskyni hafa stjórnvöld hrakið marga námsmenn frá námi eða meinað þeim að þreyta próf. Vaxandi fjöldi hvítrússneskra ungmenna þarf því að afla sér menntunar utan Hvíta-Rússlands. Til þess að gera þeim það kleift mun ESB ásamt Norrænu ráðherranefndinni bjóða hvítrússneskum námsmönnum námsstyrki, en um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára. Umsóknarfrestur er til 15. nóvember og eru nemendur við EHU styrkhæfir, en einnig hvítrússnesk ungmenni sem hyggja á nám þar eða við háskóla í nágrannalöndum Hvíta-Rússlands – einkum Úkraínu. “Í samstarfi við ESB er Norræna ráðherranefndin með þessu verkefni að auka mjög stuðning sinn við þróun lýðræðisaflanna í Hvíta-Rússlandi. Og þar er unga fólkið í lykilhlutverki. Námsstyrkirnir eiga eftir að gefa hvítrússneskum ungmennum tækifæri til að afla sér þekkingar og reynslu sem kemur ekki einungis þeim sjálfum til góða heldur einnig Hvíta-Rússlandi”, segir Per Unckel, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Sjá nánar eftirfarandi fréttatilkynningar:

Fréttatilkynning frá Norrænu ráðherranefndinni (PDF - 59Kb)

Fréttatilkynning frá ESB (PDF - 82Kb)

                                  

                                                                                                            Reykjavík, 16 október 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum