Hoppa yfir valmynd
10. september 2007 Forsætisráðuneytið

Sterkari staða sjálfstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi

Færeyjar, Grænland og Álandseyjar styrkja stöðu sína í norrænu samstarfi samkvæmt ákvörðun sem tekin var á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda á Álandseyjum í síðustu viku. Á fundinum voru kynntar tillögur starfshóps sem undanfarna mánuði hefur haft þessi mál til skoðunar en þær miða allar að því að efla þátttöku sjálfstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi innan þess ramma sem Helsingforssáttmálinn markar því.

Tillögurnar, sem eru settar fram í svonefndu Álandseyjaskjali og samstarfsráðherrarnir hafa nú gert að sínum, gera m.a. ráð fyrir að færeyskir og grænlenskir ráðherrar og embættismenn geti leitt norræna fundi fyrir hönd Danmerkur og að sama skapi geti ráðherrar og embættismenn Álandseyja gert slíkt hið sama fyrir hönd Finnlands. Þá geta sjálfstjórnarsvæðin tekið þátt í stjórnun og stefnumótun samnorrænna stofnana á sömu forsendum og norrænu ríkin. Einnig má nefna að gert er ráð fyrir að eftirleiðis muni sjálfstjórnarsvæðin svara fyrirspurnum og ályktunum Norðurlandaráðs þegar um er að ræða málefni sem þau hafa sjálf lögsögu yfir.

 

                                                                                                             Reykjavík 10. september 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum