Hoppa yfir valmynd
4. júní 2008 Forsætisráðuneytið

Leiðtogafundur Eystrasaltráðsins í Riga 3. - 4. júní 2008

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sat leiðtogafund Eystrasaltsráðsins í Riga 3. – 4. júní. Á fundinum var fjallað almennt um svæðisbundna samvinnu í Evrópu, umbætur á skipulagi Eystrasaltsráðsins og framtíð þess og gerð grein fyrir stefnumótun Evrópusambandsins vegna Eystrarsaltssvæðisins.

Forsætisráðherra lýsti eindregnum stuðningi við yfirlýsingu aðildarríkjanna um umbætur og það markmið að gera Eystrarsaltsráðið skilvirkara og verkefnatengdara , þannig að það gæti betur gegnt hlutverki sínu við breyttar aðstæður á 21. öldinni. Hann fagnaði sérstaklega áformum um að ráðið stuðlaði að aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á Eystrarsaltssvæðinu og áherslu á efnahagslega vaxtarmöguleika á Eystrarsaltinu sem hafsvæði, þ.e. með tilliti til siglinga og fiskveiða.

Forsætisráðherra tók fram að þótt strendur Íslands liggi ekki að Eystrasaltinu, skipti miklu að Íslendingar geti átt pólitískt og hagnýtt samstarf við grannríki á þessum vettvangi í þeim tilgangi að stuðla sameiginlega að almennt bættum lífsgæðum þjóðanna sem þar búa. Að auki sé þátttaka Íslands gagnleg í víðara samhengi svæðisbundinnar samvinnu í Norður-Evrópu.

Í Eystrarsaltsráðinu eru auk Íslands, Danmörk, Eistland, Finnland, Lettland, Litháen, Noregur, Pólland, Rússland, Svíðþjóð og Þýskaland. Fundinn sóttu forsætisráðherrar allra ríkjanna eða staðgenglar þeirra og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og tveir aðrir framkvæmdastjórar þess. Danmörk tekur við formennsku í Eystrarsaltsráðinu í sumar og fundur utanríkisráðherra aðildarríkjanna verður haldinn þar árið 2009. Næsti leiðtogafundur ráðsins verður haldin í Litháen árið 2010.

Reykjavík 4. júní 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum