Hoppa yfir valmynd
10. júní 2008 Forsætisráðuneytið

Skýrsla nefndar um atvinnu og samfélag á Norðurlandi vestra

Nefnd sem forsætisráðherra skipaði þann 4. janúar 2008 til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra hefur lokið störfum og skilað skýrslu með margvíslegum tillögum. Nefndin var skipuð að beiðni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, en samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands var hagvöxtur minni á Norðurlandi vestra en nokkru öðru svæði tímabilið 1998 til 2005.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir ýmsum aðgerðum til uppbyggingar á Norðurlandi vestra. Í því sambandi má nefna uppbyggingu Háskólans á Hólum, flutning ýmissa opinberra verkefna til fjórðungsins, fyrirhugaða stækkun Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og fyrirhugaða sameiningu heilbrigðisstofnana á Blönduósi og Sauðárkróki.

Auk tillagna um almennar umbætur á Norðurlandi vestra miða tillögur nefndarinnar að því að leggja til við stjórnvöld að efla starfsemi opinberra stofnana sem eru á svæðinu, m.a. á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar, sem í samvinnu við fyrirtæki geti með ráðgjöf og rannsóknum snúið við atvinnuþróuninni til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar starfa á komandi árum. Helstu tillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:

Ríkisstjórnin komi á fót stýrihópi sem vinni með ráðuneytum og stofnunum þeirra að því að jafna hlutdeild landsbyggðar í fjölda opinberra starfa m.a. með því að staðsetja ný opinber verkefni á landsbyggðinni eða færa til þess bær opinber verkefni frá höfuðborgarsvæðinu.

Starfsemi innan Versins, þekkingarseturs á Sauðárkróki, verði stórefld og ýmis starfsemi, sem tengist rannsóknum, þróun og nýsköpun, gangi til samstarfs við Verið um sameiginlegan rekstur og samnýtingu á sem flestum sviðum. Þar verði m.a. komið á fót starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Skotið verði styrkari stoðum undir starfsemi Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og Matís ehf. á Sauðárkróki og samstarf þeirra við Háskólann á Hólum verði eflt. Aukin áhersla verði lögð á háskólamenntun innan þekkingarsetursins með fjarnámi og staðbundinni kennslu er falli undir Farskólann – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra er verði hluti af setrinu.

Stjórnvöld veiti því liðsinni að koma á fót þekkingarsetri á Skagaströnd sem hafi það að markmiði að byggja upp starfsvettvang þar sem unnið yrði að menntun, menningu, nýsköpun og atvinnuþróun með hliðsjón af styrkleikum svæðisins.

Hafrannsóknastofnun og Háskólanum á Akureyri verði gert kleift, í samstarfi við Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf. á Skagaströnd, að efla rannsóknir á lífríki sjávar.

Söfn, menningarstofnanir og ferðaþjónustuaðilar í Húnavatnssýslum verði aðstoðuð við að byggja upp og þróa innviði starfseminnar og efla samstarf í markaðssetningu. Stutt verði við aukið samstarf Textílseturs Íslands og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi með áherslu á menntun og rannsóknir á íslensku handbragði fyrri tíma og þróun á hvers kyns textílhönnun.

Rannsóknir og starfsemi Selaseturs Íslands á Hvammstanga verði efld í samvinnu við Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar og Háskólann á Hólum.

Innheimtumiðstöð sekta hjá sýslumannsembættinu á Blönduósi verði færð fleiri innheimtuverkefni opinberra aðila með áherslu á að einfalda innheimtu og gera hana skilvirkari á landsvísu.

Nýjum verkefnum Vinnumálastofnunar verði fundinn staður á Skagaströnd eftir því sem unnt er.

Gróska, upplýsingakerfi í málefnum fatlaðra, verði aðlöguð almennri félagsþjónustu sveitarfélaga. Hönnun kerfisins, sem á að vera til þess fallið að auka gæði þjónustunnar og geta nýst öllum sveitarfélögum, hefur átt sér stað á Hvammstanga.

Þjóðminjasafni Íslands verði gert kleift að flýta skráningu í gagnagrunninn Sarp með aukinni fjarvinnslu á Hvammstanga.

Stjórnvöld sjái til þess að aðgangur nýrra aðila að gagnaflutningsgetu út á land tryggi háhraðatengingu á hvern bæ og aukna samkeppni í heildsölu og smásöluþjónustu.

Unnið verði markvisst að því að auka menntunarstig á Norðurlandi vestra og skapa fleirum tækifæri til að ljúka framhaldsskóla- og háskólamenntun. Byggt verði á styrkleika sem fyrir hendi er á svæðinu í skólastarfi með þróunarverkefnum milli skóla.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum