Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2009 Forsætisráðuneytið

Fjárhagslegur stuðningur ríkisins vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi 29. maí sl.

Suðurlandsskjálftinn 29. maí í fyrra olli gríðarlegu tjóni sem metið er á milljarða króna enda voru þetta mestu hamfarir sem gengið hafa yfir jafn fjölmenna og þéttbýla byggð hér á landi. Jarðskjálftinn reyndi þess vegna mikið á alla þætti samfélagsins, þ.á.m. styrk mannvirkja, stjórnsýslu sveitarfélaga og ríkisins, fjarskiptakerfi, rekstur fyrirtækja og viðbragðsgetu Almannavarna, löggæslu og slökkviliðs. Sjálfboðaliðar svo sem björgunarsveitir, Rauði krossinn og fleiri samtök lögðu fram gífurlega mikla vinnu og er þeim þakkað sérstaklega.

Síðast en ekki síst reyndu þessar miklu hamfarir á fólkið sjálft, einstaklinga og fjölskyldur á jarðskjálftasvæðinu sem sýndi mikið æðruleysi í skjálftanum sjálfum og þolgæði að vinna úr þeim vanda sem á eftir fylgdi. Jarðhræringarnar skóku ekki aðeins landið heldur ollu þær einnig sálrænum skaða sem margir eiga enn við að glíma. Þeim sem unnu og reyndar vinna enn að áfallahjálp og sálrænum stuðningi er mikið að þakka.

Það er samdóma álit að mjög vel hafi tekist til um viðbrögð við skjálftanum og stöðugt bætist við þá reynslu okkar, sem því miður er dýru verði keypt, hvernig best sé að bregðast við náttúruhamförum í landi okkar. Eitt af því sem við höfum lært af biturri fyrri reynslu er að ekki duga fyrstu viðbrögðin ein, heldur þarf þess í stað að setja á fót langtíma stuðning á hamfarasvæðinu. Af þessum sökum voru sett ný lög sem tóku á þessu og sett var upp þjónustumiðstöð í Tryggvaskála sem hefur starfað allt frá skjálftadegi. Almannavarnadeild og embætti ríkislögreglustjóra önnuðust rekstur þjónustumiðstöðvarinnar frá upphafi. Síðustu mánuði hefur þjónustumiðstöðin tekið við erindum vegna tjóna og ráðuneyti í góðri samvinnu við bæjarstjóra samþykkt tillögur um styrki.

Forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti munu nú hefjast handa um að greiða út styrki. Þeir styrkir sem greiddir verða á næstunni eru vegna niðurrifs, endurmats á brunabótamati, tjóns á innbúum o.fl., en samkvæmt viðgerðarreikningum þegar um er að ræða stéttar, palla, veggi, hleðslur, frárennsli, vatnsveitur, borholur o.þ.h. Þær viðgerðir hefjast væntanlega flestar næsta vor.

Sveitarfélögin á skjálftasvæðinu hafa unnið gríðarlega mikið starf. Það er sérstök ástæða að þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaganna og mörgum sérfræðingum fyrir allt þeirra mikla og góða starf. Þá skal það einnig haft í huga að mikið hefur mætt á Viðlagatryggingu og er starf þeirra enn í fullum gangi.

Starfi Þjónustumiðstöðvarinnar í Tryggvaskála verður haldið áfram en þó verður hún ekki opin nema þegar þörf krefur. Þeir sem vilja koma erindum til verkefnistjóra miðstöðvarinnar geta gert það í þjónustusíma (861 6744) eða með netfangi ( [email protected] og [email protected] ). Starf miðstöðvarinnar á næstunni felst fyrst og fremst í því að koma styrkjum í réttar hendur en forsætisráðuneytið hefur forræði á afgreiðslu styrkjanna.

Yfirlit styrkja vegna jarðskjálftans á Suðurlandi 29. maí 2008

Reykjavík 14. janúar 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum