Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2009 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing frá forsætisráðherra vegna opins bréfs formanns Landssambands lögreglumanna

Forsætisráðherra átti í dag fund með Snorra Magnússyni, formanni Landssambands lögreglumanna og öðrum forsvarsmönnum félagsins. Á fundinum ítrekaði ráðherra velvilja sinn í garð lögreglunnar og ánægju með störf hennar. Mat ráðherrans er að lögreglan og lögreglumenn hafi sinnt sínu starfi með miklu sóma undanfarna mánuði við erfiðar aðstæður.

Fundurinn var haldinn í kjölfar opins bréfs sem Snorri Magnússon skrifaði forsætisráðherra í Morgunblaðið þriðjudaginn 13. janúar. Þar er lýst með þeirri hættu sem lögreglumenn búa við í starfi í tilefni af ummælum ráðherra í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 6. janúar vegna mótmæla á gamlársdag.

Forsætisráðherra er mæta vel kunnugt um starfsskilyrði lögreglumanna og hefur fullan skilning á hlutskipti þeirra og fjölskyldna þeirra og þeirri hættu sem lögreglumenn leggja sig í þegar átök brjótast út.

Landssamband lögreglumanna gegnir mikilvægu hlutverki fyrir lögreglumenn og er mikilvægur vettvangur faglegrar umræðu um störf lögreglunnar. Forsætisráðherra fagnar af þeim sökum tækifæri til að skiptast á skoðunum við forsvarsmenn félagsins og kynnast sjónarmiðum þeirra. Báðir aðilar gera sér fulla grein fyrir því að lögregla getur aðeins sinnt starfi sínu fái hún til þess þann stuðning og það traust sem hún þarf af hálfu stjórnvalda og njóti auk þess velvilja almennings í landinu. Það er fullvissa forsætisráðherra að svo sé um lögregluna á Íslandi.

Reykjavík 21. janúar 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum