Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra hvetur til samstöðu þings og þjóðar í stefnuræðu sinni

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hvatti til samstöðu þings og þjóðar í stefnuræðu sinni sem flutt var á Alþingi 4. febrúar. Hún lagði áherslu á að raddir almennings fengju að hljóma og þeir sem í stjórnmálum störfuðu finndu leiðir til þess að skoðanir sem flestra fengju að heyrast.

Forsætisráðherra lagði áherslu á lýðræðislegar umbætur nýrrar ríkisstjórnar og þær breytingar á stjórnarskrá sem hún hefur í hyggju til að efla lýðræði í landinu. Hún fjallaði um mikilvægi samskipta við erlendar þjóðir og nauðsyn þess að traust á íslensk stjórnvöld og efnahagslíf yrði endurreist bæði hér heima og erlendis.

Forsætisráðherra fullvissaði þingheim og þjóðina alla um að ríkisstjórn hennar myndi fylgja ábyrgri efnahagsstjórn og að allar aðgerðir myndu miðast að því að rétta við hag heimila og fyrirtækja.

 

Forsætisráðherra fór yfir þau verkefni sem helst bíða ríkisstjórnar hennar, að endurreisa fjármálakerfið svo hægt verði að styðja við uppbyggingu atvinnulífs, áframhaldandi samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í efnahagsmálum, baráttu við atvinnuleysi og aðgerðir til bjargar skuldsettum heimilum.

 

Í lok ræðu sinnar ítrekaði forsætisráðherra þá ábyrgð sem lögð er á herðar þingmanna við þær aðstæður sem nú ríkja, lýsti yfir vilja til að stórauka samstarf  við þingið af hálfu stjórnarinnar og hvatti alþingismenn til samstöðu með þjóðinni á erfiðum tímum.

 

Reykjavík 5. febrúar 2009

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum