Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Þáttaskil í vinnu stjórnvalda við að byggja upp fjármálakerfið

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var m.a. fjallað um mál er varða endurreisn fjármálakerfisins í landinu og staðfest starfsáætlun nefndar sem skipuð hefur verið til að vinna að því verkefni samkvæmt samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, AGS. Starfsáætlunin miðast við þau meginmarkmið sem stefnt er að við uppbyggingu banka- og fjármálakerfis sem stenst alþjóðlegar kröfur og samanburð.

Forsætisráðherra kynnti málið í ríkistjórn en í hans umboði starfar endurreisnarnefndin sem skipuð er fulltrúum þeirra ráðuneyta sem mest hefur mætt á við lausn efnahagsvandans, forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Formaður nefndarinnar er sænski bankasérfræðingurinn Mats Josepson.

Meðal þess sem áætlunin tekur til er stofnun eignasýslufélags sem tekur yfir eignir frá bönkum og ráðning alþjóðlegra ráðgjafa sem fara eiga með mál ríkisins gagnvart skilanefndum gömlu bankanna.

Eignasýslufélagið mun hafa það hlutverk að yfirtaka eignir banka, þ.e. fyrirtæki í þeirra eigu og umsjá, þar sem starfsemin er í raun komin í þrot. Markmiðið með því er að tryggja að atvinnustarfsemi sem er nauðsynleg fyrir gangverk samfélagsins geti haldið áfram og hins vegar að forða því að verðmæti fari til spillis. Þessi leið hefur verið farin í öðrum löndum þar sem fjármálalegt hrun hefur orðið og skilað góðum árangri. Viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra munu undirbúa frumvarp til laga um stofnun slíks félags og ríkisstjórnin mun taka endanlega afstöðu til málsins þegar þegar það liggur fyrir.

Þá féllst ríkissjórnin á að tillögu þess efnis að ráðnir yrðu alþjóðlegir ráðgjafar sem aðstoði ríkið í samningaviðræðum við skilanefndir gömlu bankanna og ráðgjafa þeirra vegna krafna sem uppi eru af þeirra hálfu um hlutdeild í þeim eignum og verðmætum sem flutt hafa verið úr gömlu bönkunum til þeirra nýju.

Samþykktir ríkisstjórnarinnar í dag marka þáttaskil í vinnu stjórnvalda við að byggja upp fjármálakerfið á Íslandi á nýjan leik. Líklegt er talið að mati á eignum bankanna ljúki í lok næsta mánaðar og fljótlega eftir það verði hægt að ljúka fjármögnun þeirra.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum