Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Norrænt hnattvæðingarþing á Íslandi

Markar fjármálakreppan endalok eða upphaf framsækinnar loftslagsstefnu? Leitað verður svara við þessari spurningu og öðrum á hnattvæðingarþingi norrænu forsætisráðherranna sem haldið verður við Bláa lónið dagana 26. og 27. febrúar.

Forsætisráðherrarnir fimm og leiðtogar sjálfstjórnarsvæðanna Grænlands, Færeyja og Álandseyja sitja þingið ásamt forystumönnum atvinnulífs á Norðurlöndum, fulltrúum fjölmiðla, borgarasamtaka, rannsóknastofnana og stjórnmála. Erlendir fyrirlesarar munu fjalla um alþjóðlegu fjármálakreppuna, loftslagsmál og gildi nýsköpunar og nýrra uppfinninga. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands er gestgjafi fundarins.

Meðal erlendra fyrirlesarar verða Kenneth Rogoff, prófessor í hagsfræði við Harvard háskólann, David Carlson, prófessor við Oregon State University og framkvæmdastjóri alþjóðalega heimskautaársins og Curtis Carlsson, heimsþekktur sérfræðingur í nýsköpun og forstjóri bandarísku rannsóknastofnunarinnar SRI. Lykke Friis, aðstoðarrektor við Hafnarháskóla, mun stjórna hnattvæðingarþinginu.

Meðal þáttakenda á þinginu má nefna Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóra Marorku og handhafa umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2008, Nicklas Lundblad, Google, Kristinu Persson, frá Sambandi norrænu félaganna, Jörgen Bardenfleth, Microsoft, Ninu Smith prófessor við Árósaháskóla, Tuomas Saarenheimo frá finnska seðlabankanum, Maarit Lindström frá finnska verslunarráðinu, Kjell Bendiksen frá stofnun um orkutækni (IFE), Finn Bergesen jr.frá Samtökum atvinnulífsins i Noregi (NHO).

Hugmyndin um að halda árlegt hnattvæðingarþing byggir á þeirri ósk norrænu forsætisráðherranna að ræða ýmis viðfangsefni og tækifæri hnattvæðingar séð frá sjónarhóli Norðurlanda og leita eftir skoðunum færustu sérfræðinga. Markmið þingsins er að kveikja hugmyndir sem geta nýst norrænu forsætisráðherrunum og verið þeim ráðgefandi, svo og norrænu samstarfi í heild sinni.

Samstarfsráðherrarnir fimm, sem bera ábyrgð á norrænu samstarfi í hverju landi fyrir sig, og fulltrúar Norðurlandaráðs munu einnig sitja hnattvæðingarþingið. Þá munu Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og Jan-Erik Enestam framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs sitja þingið.

 Hnattvæðingarþingið er nú haldið undir forystu Íslendinga á formennskuári þeirra í Norrænu ráðherranefndinni. Það er skipulagt af Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.

Tengiliður fjölmiðla: Sigrún Björnsdóttir

 

Reykjavík 18. febrúar 2009

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum