Hoppa yfir valmynd
3. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Erlendir samningamenn ráðnir til að verja hagsmuni ríkissjóðs

Ríkisstjórn Íslands afréð á fundi sínum í dag, 3. febrúar, að tillögu forsætisráðherra, að ganga til samninga við hið alþjóðlega ráðgjafafyrirtæki Hawkpoint um að vinna að samningagerð milli gömlu og nýju bankanna undir stjórn fulltrúa íslenskra stjórnvalda. Verkefnið sem um er að ræða er annarsvegar ráðgjöf vegna þeirra samninga sem þurfa að eiga sér stað milli ríkisins, f.h. nýju bankanna og kröfuhafa gömlu bankanna í tengslum við lokauppgjör og hins vegar nýting sérþekkingar varðandi fyrirkomulag og mögulegar lausnir í tengslum við uppgjörið, en ýmsar leiðir koma þar til greina.

Áður höfðu stjórnvöld boðið fjórum erlendum ráðgjafafyrirtækjum að taka þátt í útboði, þar sem lagt skyldi mat á hvert þeirra gæti best tekið að sér ofangreind verkefni. Tvö þeirra drógu sig í hlé vegna hagsmunatengsla, en auk Hawkpoint mættu fulltrúar Houlihan Lokey til fundar við fulltrúa íslenskra stjórnvalda og gerðu grein fyrir hugmyndum sínum.

Dómsmálaráðherra kynnti skipan 3ja manna nefndar undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur fyrrverandi hæstaréttardómara sem á að móta nýjar reglur um skipan dómara við bæði hæstarétt og héraðsdóm. Nefndin er skipuð til samræmis við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.

Fjármálaráherra kynnti í dag ríkisstjórn yfirlit yfir stöðu þjóðarbúsins. Nánari kynning á þeirri stöðu fer fram síðar í þessari viku.

Forsætisráðherra lagði fram lista yfir öll mál stjórnarinnar sem fram hafa komið frá því hún tók til starfa.

Nánari upplýsingar um Hawkpoint: www.hawkpoint.com

 

Reykjavík 3. mars 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum