Hoppa yfir valmynd
11. júní 2009 Forsætisráðuneytið

Frumvarp um breytingar á stjórnkerfinu og verkefnum ráðuneyta lagt fram á Alþingi

Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Frumvarpið er lagt fram í samræmi við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að gera róttækar breytingar á skipulagi stjórnkerfisins á kjörtímabilinu.

Breytingum er ætlað að einfalda stjórnsýslu og bæta þannig þjónustu við atvinnulíf og almenning, efla fagráðuneytin og gefa forsætisráðuneytinu meira svigrúm til að sinna forystu við stefnumótun og samhæfingu milli ráðuneyta og stjórnsýslunnar í heild. Breytingar á skipulagi ráðuneyta og stofnana verða innleiddar í áföngum á kjörtímabilinu.

Við breytingar verður litið til margra þátta, en meginmarkmið þeirra er að auka skilvirkni í ríkisrekstri og bæta þá þjónustu sem sérstök áhersla verður lögð á. Liður í því er að stækka og fækka einingum, gera þær hagkvæmari og skilvirkari og forgangsraða betur en gert hefur verið og draga þannig úr kostnaði ríkissjóðs til frambúðar.

Þeir þættir sem helst er talið að huga þurfi að við fyrirhugaðar breytingar eru:

  • Hvernig má hagræða án þess að skerða þjónustu?
  • Hvernig má hagræða og bæta þjónustu?
  • Hvernig má efla rafræna þjónustu og draga úr kostnaði til lengri tíma?
  • Hvernig má samþætta þjónustu ýmissa stofnana ríkis og sveitarfélaga?
  • Hvernig má gera þjónustu ríkisins sveigjanlegri og hagkvæmari?
  • Hvernig má auka skilvirkni?
  • Hvernig má virkja starfsfólk betur og auka sveigjanleika í starfi?
  • Hvernig má efla þróun og nýsköpun innan stjórnsýslunnar?


Nánar:



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum