Hoppa yfir valmynd
30. júní 2009 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórn afgreiðir 2/3 hluta mála á fyrri helmingi 100 daga áætlunar

Ríkisstjórnin hefur nú afgreitt 32 af 48 málum sem eru á 100 daga lista hennar á þeim 50 dögum sem liðnir eru frá því hún hófst handa. Þetta jafngildir því að afgreidd séu um 2/3 verkefnalistans. Á listanum eru jafnt mál sem teljast til bráðaaðgerða í efnahags- , atvinnu- og bankamálum, en líka mál sem varða framtíðarhag, svo sem stefna í ríkisfjármálum til 2013, mótun nýrrar orkustefnu, uppbygging sóknaráætlana fyrir alla landshluta og ný náttúruverndaráætlun.

Málunum 48 er skipt upp í 7 flokka; efnahagsmál, endurreisn bankakerfisins, fjármál hins opinbera, atvinnumál og velferð heimila og fyrirtækja, umhverfi og auðlindir, lýðræði mannréttindi og stjórnkerfisumbætur og utanríkis- og evrópumál. Þau 16 mál sem eftir standa eru í undirbúningi eða langt komin í vinnslu. Þar má nefna samninga til að leysa úr vanda vegna erlendra eigenda krónubréfa, óafgreidd mál í bankakerfinu þar sem lokadagsetning hefur þegar verið fastsett og mál er varða skuldastöðu heimilanna, kynningu úrræða sem í boði eru og endurskoðun þeirra ef þörf krefur.

Allar upplýsingar um 100 daga áætlunin má nálgast á upplýsingavef stjórnvalda, www.island.is. og þar er að finna ítarefni um um þau mál sem ríkisstjórnin hefur afgreitt.

Þessi mál hefur ríkisstjórnin afgreitt á fyrstu 50 dögunum:

Efnahagsmál

1. Lokavinnu við samninga um erlend lán við vinaþjóðir

2. Lokavinnu við samninga um erlendar kröfur – Icesave

3. Ráðið nýja yfirstjórn í Seðlabanka Íslands

4. Hafið vinnu við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélags- og efnahagsmálum þjóðarinnar og framtíðarvalkosti

5. Sett á fót samráðsvettvang ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins

6. Náð samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála

7. Byrjað að móta atvinnustefnu í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagið, þar sem eitt ar markmiðunum er að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu landa heims árið 2020

8. Hafið viðræður við lífeyrissjóði og innlenda fjárfesta um að taka þátt í að efla atvinnulífið með hinu opinbera

9. Hafið vinnu við mótun sóknaráætlana fyrir alla landshluta til að efla atvinnulíf og lífsgæði til framtíðar

Endurreisn bankakerfisins

10. Tekið ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna í ríkisstjórn

11. Lagt fram frumvarp á Alþingi um eignaumsýslufélag

12. Lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um sparisjóði

Fjármál hins opinbera

13. Afgreitt forsendur fjárlaga ársins 2010 og áætlun í ríkisfjármálum til millilangs tíma í ríkisstjórn

14. Lagt fram skýrslu vegna áætlunar í ríkisfjármálum 2009 og áætlunar til millilangs tíma á Alþingi

15. Sett á fót tekjustofnanefnd sem hafi það hlutverk að vinna tillögu um breikkun og styrkingu tekjustofna sveitafélaga

16. Gripið til viðeigandi aðgerða til að lækka hæstu laun hjá ríkinu og félögum á þess vegum með það að leiðarljósi að enginn verði með hærri laun en forsætisráðherra

17. Lagt fram frumvarp á Alþingi um aðgerðir gegn skattundanskotum

Atvinnumál og velferð heimila og fyrirtækja

18. Lagt fram frumvarp á Alþingi um að breyta lögum um LÍN þannig að ekki verði lengur krafist ábyrgðarmanna

19. Afgreitt nýjar útlánareglur hjá LÍN

20. Hafið vinnu við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn

Umhverfi og auðlindir

21. Frumvarp um handfæraveiðar smábáta yfir sumartímann lagt fram á Alþingi

22. Átak til að fjölga sumarstörfum og nýjum atvinnutækifærum fyrir ungt fólk

23. Endurskoðun hafin á fiskveiðstjórnunarkerfinu

24. Skipaður ráðgefandi hópur útgerðarmanna og sjómanna um veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástands lífríkis sjávar

25. Náttúruverndaráætlun til ársins 2013 lögð fram á Alþingi

Lýðræði, mannréttindi og stjórnkerfisumbætur

26. Frumvarp um persónukjör lagt fram á Alþingi

27. Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur lagt fram á Alþingi

28. Frumvarp um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010 lagt fram

29. Endurskoðun á reglum um fjármál stjórnmálaflokka hafin

30. Endurskoðun hafin á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins

31. Frumvarp um breytingar á stjórnarráði Íslands lagt fram á Alþingi

Utanríkis- og Evrópumál

32. Þingsályktunartillaga vegna umsóknar Íslands að ESB lögð fram á Alþingi



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum