Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2010 Forsætisráðuneytið

Framlög til björgunarstarfs á Haíti

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að leggja fram 35 milljónir króna vegna ferðar Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar til Haítí. Ennfremur ákvað ríkisstjórnin að veita af ráðstöfunarfé sínu 15 milljónir króna til hjálpar- og uppbyggingarstarfs íslenskra félagasamtaka á Haítí og verður þeim úthlutað í samstarfi við félagasamtök.

Auk þess hefur utanríkisráðuneytið veitt rúmum 22 milljónum króna til verkefna vegna björgunaraðgerðanna. Heildarframlag ríkissjóðs vegna jarðskjálftanna á Haítí er því orðið 81 milljón króna, en reiknað er með að 8,7 milljónir króna endurgreiðist úr almannavarnarsjóði Evrópusambandsins.

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin (ICE-SAR) var send til björgunarstarfa á jarðskjálftasvæðunum á Haítí 13. – 21. janúar 2010. Grundvöllur þessa verkefnis er samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar um Íslensku alþjóðabjörgunarsveitina frá 23. maí 2008, en samkvæmt honum starfar sveitin erlendis í umboði íslenskra stjórnvalda. Í samræmi við samstarfssamninginn bera stjórnvöld kostnað af ferð sveitarinnar til björgunarstarfa. Auk þess var Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin sérstaklega styrkt til þess að afhenda Sameinuðu þjóðunum ýmsan búnað við brottförina. Þá hefur Ísland einnig aukið stuðning sinn við Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna vegna hamfaranna á Haítí.

Reykjavík 22. janúar 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum