Hoppa yfir valmynd
3. júní 2010 Forsætisráðuneytið

Styrkur í svæðisbundnu samstarfi í Eystrasaltsráðinu

Leiðtogar Eystrasaltsráðsins ásamt forseta framkvæmdastjórnar ESB
Leiðtogar Eystrasaltsráðsins ásamt forseta framkvæmdastjórnar ESB

Á fundi leiðtoga aðildarríkja Eystrasaltsráðsins í gær voru efnahagsmál og styrking svæðisbundins samstarfs í forgrunni. Samþykkt var yfirlýsing af hálfu leiðtoganna um framtíðarsýn fyrir Eystrasaltssvæðið undir yfirskriftinni Vision 2020. Meginefni hennar er aukin samkeppnishæfni í svæðisbundnu samstarfi, á umhverfisvænum grunni og með félagsleg markmið að leiðarljósi.

Leiðtogarnir lögðu áherslu á að þrátt fyrir að öll löndin glími nú við afleiðingar fjármálakreppunnar, meðal annars mikið atvinnuleysi og fjárlagahalla í flestum ríkjunum, væri mikilvægt að horfa til framtíðar. “Það er ljóst að við glímum við mjög samskonar vanda í mörgum aðildarríkjanna” segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. “Viðbrögðin í öllum löndunum felast í auknu aðhaldi í ríkisfjármálum, verkefnum og aðgerðum til að draga úr atvinnuleysi og ekki síst að örva nýsköpun og viðskipti. Þetta getum við gert í svæðisbundnu samstarfi, í samstarfi okkar innan Evrópu og með sameiginlegum áherslum og regluverki sem styður og veitir aðhald. Mörg ríkin fóru í gegn um fjármálakreppu á níunda áratugnum og eru með reynslu í farteskinu sem mikilvægt er að læra af. Það er hins vegar ljóst að hvert ríki fyrir sig þarf að taka á sínum málum annars vegar heima fyrir og hins vegar með samstarfi á fjölþjóðlegum vettvangi.”

Eystrasaltsráðið hefur einnig beitt sér sérstaklega gegn skipulagðri glæpastarfsemi og mansali. Samþykktu leiðtogarnir að framlengja verkefnið til ársins 2016.

Forsætisráðherra átti einnig fundi með öðrum leiðtogum um samstarf Íslands og einstakra ríkja um viðbrögð við alþjóðlegu efnahagskreppunni, aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og önnur málefni.

Litháar hafa gegnt formennsku í Eystrasaltsráðinu undanfarið ár, en Noregur tekur við formennskunni næsta árið. Önnur aðildarríki Eystrasaltsráðsins eru Danmörk, Finnland, Eistland, Lettland, Pólland, Rússland, Svíþjóð og Þýskaland, auk þess sem framkvæmdastjórn ESB á sæti í ráðinu.

Reykjavík 3. júní 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum