Hoppa yfir valmynd
6. júní 2010 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing forsætisráðherra um launamál seðlabankastjóra

Forsætisráðherra ræddi við fjóra umsækjendur um stöðu bankastjóra Seðlabanka Íslands, og þar á meðal við Má Guðmundsson, skömmu áður en gengið var frá skipun í embættið þann 26. júní 2009 og þar voru launamál ekki rædd með neinum hætti. Þá brást forsætisráðherra ekki með neinum hætti við tölvupósti sem Már Guðmundsson sendi henni 21. júní 2009 þar sem hann reifar sín persónulegu sjónarmið varðandi mögulega launalækkun.  Jafnframt liggur fyrir að forsætisráðherra sá aldrei neina útreikninga varðandi hugsanleg launakjör seðlabankastjóra. Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands,og  Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu hafa öll komið fyrir efnahags- og skattanefnd Alþingis vegna þessa máls og staðfest að forsætisráðherra hafi engin vilyrði eða loforð gefið varðandi laun seðlabankastjóra. Þá eru gögn málsins og þar á meðal tölvupóstasamskipti forsætisráðuneytisins sem málið varða opinber og hafa verið lögð fram í efnahags- og skattanefnd Alþingis.

Á öllum stigum málsins var ljóst að það væri ekki á verksviði forsætisráðuneytisins að ákvarða laun seðlabankastjóra eða gefa fyrirheit, vilyrði eða loforð um að launakjör seðlabankastjóra tækju engum breytingum í framtíðinni, svo sem með úrskurðum kjararáðs, en slíkur úrskurður var kveðinn upp 23. febrúar 2010 með gildistöku frá 1. mars 2010. Það var á þeim tíma sem Már var skipaður seðlabankastjóri sumarið 2009 alfarið hlutverk bankaráðs að ákvarða launakjör seðlabankastjóra og síðar í kjölfar lagabreytinga var það hlutverk kjararáðs og bankaráðs Seðlabanka Íslands og þannig er það í dag.

Með vísan til framangreinds er vísað á bug öllum ásökunum og fréttum um að forsætisráðherra hafi með nokkrum hætti komið að því að ákvarða laun seðlabankastjóra eða gefa fyrirheit í tengslum við launakjör hans. Fréttir annars efnis eru beinlínis rangar.

Í forsætisráðuneytinu 6. júní 2010

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum