Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 1998 Forsætisráðuneytið

Nefnd um könnun á starfsskilyrðum stjórnvalda o.fl.

Forsætisráðherra hefur í samræmi við ályktun Alþingis frá 2. júní sl. skipað nefnd til að kanna starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslunni. Í því skyni skal nefndin semja skýrslu um eftirtalin atriði:

1. Almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins.

Kanna ber hvaða óskráðu efnisreglum stjórnvöldum ber að fylgja þegar skýrum og fastmótuðum settum reglum sleppir og stjórnvöldum er eftirlátið svokallað frjálst mat við töku stjórnvaldsákvarðana. Gerð skal grein fyrir hvaða reglur gildi um meðferð slíks valds og hvort þær séu í samræmi við siðferðishugmyndir manna.

2. Stjórnkerfið og eftirlit með starfsemi stjórnvalda.

Kanna ber uppbyggingu stjórnkerfisins og að hve miklu leyti eftirlit er innbyggt í það sjálft og að hve miklu leyti það er utanaðkomandi.

3. Afleiðingar réttarbrota í stjórnsýslunni.

Kanna ber hvaða afleiðingar réttarbrot í stjórnsýslunni geta haft, m.a. hvaða viðurlög eru við þeim og hverjir geta sætt ábyrgð samkvæmt þeim, þ. á m. stjórnsýsluviðurlögum, refsiábyrgð, bótaábyrgð opinberra starfsmanna og húsbóndaábyrgð hins opinbera.

4. Úrbætur.

Nefndin skal setja fram sjónarmið um leiðir sem færar eru til úrbóta í þeim tilvikum sem gefa tilefni til þess.

Gert er ráð fyrir að unnt verði að leggja skýrslu nefndarinnar fyrir Alþingi áður en fundum þess verður frestað á vorþingi 1999.

Í nefndinni eiga sæti Páll Hreinsson dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt er formaður, Ragnar Arnalds alþingismaður og Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður. Jafnframt hefur Kristjáni Andra Stefánssyni deildarstjóra verið falið að starfa með nefndinni af hálfu forsætisráðuneytis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum