Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2010 Forsætisráðuneytið

Norrænn forsætisráðherrafundur og umræður leiðtoga á Norðurlandaráðsþingi

Forsætisráðherrar Íslands, Noregs og Svíþjóðar
Forsætisráðherrar Íslands, Noregs og Svíþjóðar

Norrænu forsætisráðherrarnir funduðu í Reykjavík 2. nóvember og áttu einnig fund með leiðtogum Færeyja, Grænlands og Álandseyja.

Forsætisráðherrarnir ræddu meðal annars stöðu verkefna og rannsókna í tengslum við hnattvæðingaráherslur sem fylgt hefur verið eftir frá árinu 2007 og stuðla að frekara samstarfi Norðurlandanna. Jafnframt ræddu þeir um efnahagsmál, stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB, þátttöku í verkefnum í Afganistan og samstarf á norðurslóðum. Finnski forsætisráðherrann kynnti formennskuáætlun í norrænu samstarfi næsta ár, en Finnar eru í formennsku árið 2011 og munu leggja verulega áherslu á grænan vöxt og umhverfisvæna þróun.

Norðurlandaráðsþing - leiðtogaumræður

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fjallaði um eflingu græns hagkerfis á Íslandi við opnun Norðurlandaráðsþings í Reykjavík 2. nóvember. Meginþema umræðunnar var „Grænn vöxtur – leiðin út úr kreppunni?“ og eftir ávörp norrænu forsætisráðherranna tóku þeir þátt í umræðum.

Forsætisráðherra benti meðal annars á nýsköpun og vöxt í nýjum umhverfisvænum aðferðum við virkjun orku og endurvinnslu gróðurhúsalofttegunda sem unnið er að hér á landi:

„Við höfum dæmi um mjög spennandi verkefni á sviði orkumála, þar sem nýsköpun á sér stað á sviði grænnar orku. Ég tel að við Íslendingar höfum hér ýmislegt fram að færa. Ísland hefur til þessa einbeitt sér að orkugjöfum frá jarðhita og vatnsföllum, en tilraunir standa yfir á virkjun sjávarfalla, endurvinnslu gróðurhúsalofttegunda og vinnslu eldsneytis með jarðhita. Þá hefur íslenskt fyrirtæki skipað sér í fremstu röð við að móta tækni sem bætir eldsneytisnýtingu.“

Ræðu forsætisráðherra í heild má finna hér á vefnum.

Ræður allra norrænu forsætisráðherranna, forseta Norðurlandaráðsþings og endurrit af umræðum má finna á vef Norðurlandaráðs: norden.org/is/nordurlandarad/thing-og-fundir/thing/thingid-2010/taler

Reykjavík 4. nóvember 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum