Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2011 Forsætisráðuneytið

Þjóðskrá Íslands tekur við rekstri Ísland.is

Upplýsinga- og þjónustuveitan island.is
Upplýsinga- og þjónustuveitan island.is

Frá 1. janúar 2011 hefur Þjóðskrá Íslands tekið að sér þróun og rekstur vefsvæðisins Ísland.is sem er upplýsinga- og þjónustuveita fyrir ríki og sveitarfélög. Markmiðið er að hægt verði að nálgast alla opinbera þjónustu í gegnum Ísland.is og að á næstu misserum verði framboð á rafrænni þjónustu ríkis og sveitarfélaga aukið til muna. Þjóðskrá Íslands heyrir undir nýtt innanríkisráðuneyti. Vefurinn Ísland.is fór í loftið í mars 2007 og hefur frá upphafi verið í umsjá forsætisráðuneytisins. Nú er hann hins vegar færður til rekstraraðila sem er betur í stakk búinn til að fóstra hann og styrkja til framtíðar. Forsætisráðuneytið mun áfram bera ábyrgð á stefnumótun um rafræna stjórnsýslu og á vegum þess hefur verið settur á fót samráðshópur með fulltrúum ráðuneyta og sveitarfélaga sem sér um að útfæra nánar stefnu um rafræna þjónustu ríkis og sveitarfélaga á Ísland.is, í samvinnu við Þjóðskrá Íslands.

Markmið Ísland.is er að auðvelda aðgengi almennings að upplýsingum og þjónustu opinberra aðila á netinu. Vefurinn gegnir því lykilhlutverki í þróun og miðlun rafrænnar opinberrar þjónustu. Þar er að finna upplýsingar um hvers kyns opinbera þjónustu sem settar eru þannig fram að notendur þurfa ekki að vita hver veitir hana. Einnig er þar aðgangur að stórum hluta eyðublaða opinberra aðila. Í tengslum við vefinn hafa verið þróuð verkfæri sem nýtast öllum opinberum aðilum. Um er að ræða miðlæga auðkenningu, rafræn skjalaskil og rafrænt þjónustulag, m.a. til að auðvelda gagnasamskipti. Þessi verkfærakista hefur verið í notkun í tvö ár og er nýtt af mörgum stofnunum. Með flutningunum nú verður þetta þróunarstarf eflt til muna.

Flutningur Ísland.is er hluti stefnu ríkisstjórnarinnar um að styrkja utanumhald og rekstur miðlægra upplýsingatækniverkefna og opinberra skráa. Í sumar var fyrsta skrefið stigið með sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár í Þjóðskrá Íslands og nú er komið að flutningi Ísland.is til Þjóðskrár Íslands. Stofnunin er vel í stakk búin til að sinna upplýsingatækniverkefnum og hefur gæðavottun upplýsingaöryggis, ISO 27001. Þar eru reknar tvær helstu grunnskrár landsins með margvíslegri rafrænni þjónustu. Tölvudeild Þjóðskrár er öflug og að auki sinnir sérstök deild rafrænni stjórnsýslu. Vel skipulagt tæknilegt umhverfi stofnunarinnar mun nýtast við þróun og rekstur Ísland.is og fellur rekstur vefsins og skráareksturinn einkar vel saman. Þá hefur Þjóðskrá mikil tengsl við sveitarfélögin í landinu sem er styrkur fyrir þróun Ísland.is sem öflugrar opinberrar þjónustuveitu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum