Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2013 Forsætisráðuneytið

Tillaga um stofnun nýs hamfarasjóðs vegna náttúruhamfara hér á landi

Í nóvember 2010 skipaði forsætisráðherra nefnd sem ætlað var að gera tillögur um bætur samkvæmt föstum verklagsreglum til tjónþola í náttúruhamförum til þess að fyrirbyggja að ríkissjóður standi frammi fyrir óvæntum útgjöldum í kjölfar náttúruhamfara. Ríkisstjórnin fjallað um tillögur nefndarinnar á fundi sínum í morgun.

Megintillaga nefndarinnar er að stofnaður verði sérstakur hamfarasjóður, sem falið verði að sinna verkefnum sem lúta annars vegar að forvörnum gegn náttúruvá og hins vegar greiðslu bóta vegna tjóns sem fellur til við náttúruhamfarir og ekki fæst bætt úr almennum vátryggingum. Nefndin leggur til að í slíkan sjóð renni þeir tekjustofnar sem fyrir hendi eru í dag, sem eru eignaskattur, en hann er lagður á brunabótamat allra fasteigna í landinu og rennur í Ofanflóðasjóð, framlag ríkissjóðs til A-deildar Bjargráðasjóðs, hlutfall af álögðum iðgjöldum Viðlagatryggingar og loks hlutfall af innheimtum skatttekjum sveitarfélaga.  

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að skipa starfshóp með fulltrúum forsætisráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og innanríkisráðuneytis sem falið verði að fjalla sérstaklega um hlutverk slíks nýs hamfarasjóðs, með hliðsjón af núverandi verkefnum Ofanflóðasjóðs og fyrirliggjandi áætlunum um framkvæmdir við ofanflóðavarnir í sveitarfélögum sem í hlut eiga og eðlilega verkaskiptingu.

Ýmsar aðrar tillögur er að finna í skýrslunni sem lúta að tryggingavernd og bæta og skýra verklag þegar náttúruhamfarir verða. Hana má finna í heild sinni hér á vefnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum