Hoppa yfir valmynd
18. september 2013 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkir styrkveitingu vegna 350 ára afmælis Árna Magnússonar 2013

350 ára afmæli Árna Magnússonar 2013
350 ára afmæli Árna Magnússonar 2013

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt styrkveitingu að upphæð tólf milljónir króna til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Styrkurinn er veittur vegna hátíðahalda og ýmissa verkefna í tilefni af því að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar í nóvember á þessu ári. 

Arfleifð Árna Magnússonar varðar tungu, bókmenntir og menningu þjóðarinnar, en Árni helgaði ævi sína fræðistörfum og söfnun handrita. Handritin teljast til auðlinda þjóðarinnar og hafa verið tilnefnd á lista UNESCO yfir Minni heimsins. Manntalið árið 1703, sem unnið var að frumkvæði Árna Magnússonar og Páls Vídalín, hefur verið tilefnt á sama varðveislulista. 

Í tilefni af afmælisárinu hefur verið efnt til sex sýninga víðsvegar um landið. Alþjóðleg ráðstefna verður haldin í Reykjavík dagana 10. - 12. október nk. Þar að auki verða fræðsluverkefni sett á laggirnar og bækur og handritakort gefin út í samstarfi við íslensk forlög. Afmælinu verður fagnað sérstaklega þann 13. nóvember 2013 með opnun sýningar, afmælisfyrirlestri og hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu. Þar sem drjúgur hluti safns Árna er enn í Danmörku munu koma þaðan góðir gestir og náið samstarf haft við Dani. Viðburðum á afmælisárinu er ætlað að ná til alls almennings en ekki síst til ungs fólks og skulu þeir minna á sameign þjóðarinnar á handritunum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum