Fréttasafn

Forsætisráðherra einn af tíu þjóðarleiðtogum í forsvari jafnréttisátaks UN Women

17.2.2017

Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra
Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra
Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson
Mynd 2 af 3
1 2 3

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur tekið ákvörðun um verða við beiðni um að vera einn af tíu þjóðarleiðtogum í forsvari fyrir átaki UN Women sem miðar að því að fá karlmenn um allan heim til þess að taka þátt í baráttunni fyrir jafnrétti - svokallað HeforShe - 10x10x10 Impact Champions. Um er að ræða 10 þjóðarleiðtoga, 10 forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja og 10 háskólarektora. Þetta er kyndill sem tveir fyrrverandi forsætisráðherrar hafa haldið á lofti frá því í júní 2015.

Fyrr í vikunni birtu Sameinuðu þjóðirnar upplýsingar um að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sé nú einn af tíu þjóðarleiðtogum í forsvari átaksins. Sjá nánar á heforshe.org/en/impact 

Jafnréttismál eru eitt af áherslumálum ríkisstjórnar Íslands og voru rædd á fundi ríkisstjórnar í morgun. Dagurinn í dag, 17. febrúar, varð fyrir valinu til að opinbera forsvar forsætisráðherra á heimsvísu og stuðning ríkisstjórnar, þar sem viðburðurinn Milljarður rís er einmitt haldinn í dag í Hörpu á vegum UN Women á Íslandi. Sameinast Íslendingar þá fólki í yfir 200 löndum um að dansa fyrir hugrakkar konur um allan heim sem berjast gegn mótlæti, óréttlæti og misbeitingu í daglegu lífi. Í ár munu þátttakendur í viðburðinum heiðra minningu Birnu Brjánsdóttur. 

Allir ráðherrar ríkisstjórnar leggja sitt lóð á vogarskálarnar í jafnréttisbaráttunni, ekki síst til að fá karlmenn til þátttöku. Með bæði kynin um borð í baráttunni, verður jafnrétti náð fyrr. Samkvæmt rannsókn á vegum UN Women verður kynjajafnrétti náð í heiminum árið 2095 ef haldið er áfram á sömu braut, á sama hraða. Með þátttöku stráka og karlmanna er talið að kynjajafnrétti verði náð helmingi hraðar. 

Forsætisráðherra segist hlakka til að takast á við þetta þarfa verkefni, bæði innanlands og utan landsteinana. Mikilvægt sé að sameinast um að breyta úreltum staðalímyndum um hlutverk kynjanna og til þess að árangur náist þurfi allir að taka þátt, karlar, konur, drengir, stúlkur – um allan heim.  „Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að taka þátt með okkur, og byrjunin getur verið að skrá sig sem HeForShe.“  Skráning er einföld og rafræn, á heforshe.is

Í nafni HeForShe hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að ná launajafnrétti fyrir árið 2022, jafna hlut kvenna í fjölmiðlum fyrir 2020 og að hvetja karla til þátttöku í jafnréttisbaráttunni með virkum hætti. Annars vegar er takmarkið að fá einn af hverjum fimm íslenskum karlamönnum til að skrá sig sem HeForShe og hins vegar að auðvelda öðrum að standa fyrir rakarastofuráðstefnum með því að útbúa svokallað „Barbershop Toolkit“ eða rakarastofuverkfærakistu. Jafnlaunastaðallinn er skref í átt að því að ná settu marki varðandi launajafnrétti. Barbershop-verkfærakistan verður tilbúin í mars nk. og kynnt í New York í sama mánuði. Einn af hverjum níu karlmönnum á Íslandi eru nú skráðir HeForShe.Vinna að síðasta markmiðinu um aukinn hlut kvenna í fjölmiðlum er hafin.

Merki markmiðs númer 16 um alþjóðlega samvinnu

Efni þessarar fréttar tengist Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, markmiði númer 5 um jafnrétti kynjanna.

 

Til baka Senda grein