Fréttasafn

Sérfræðinganefnd um gengisstyrkingu: Níu leiðir til meiri stöðugleika

8.2.2017

Sérfræðingar sem unnið hafa að greiningu á samkeppnishæfni þjóðarbúsins í ljósi styrkingar krónunnar hafa skilað greinargerð til ráðherranefndar um efnahagsmál. 

Í desember sl. ákvað ráðherranefndin að fela sérfræðingum úr forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti að greina samkeppnisstöðu þjóðarbúsins í ljósi styrkingar krónunnar. 

Sérfræðingar ráðuneytanna funduðu með tólf hagsmunaðilum og greiningardeildum banka í janúar. Þann 25. janúar sl. birti fjármála- og efnahagsráðuneytið kynningarefni  þessara aðila sem talið var að gæti komið að gagni í opinberri umræðu. 

Almennt mat þeirra sem funduðu með hópnum var að ekki væri hægt að leita að skyndilausnum, heldur þyrfti fjölbreytta vinnu á ýmsum sviðum til að styrkja umgjörð og stuðla að meiri stöðugleika.

Helstu niðurstöður hópsins:

1. Vinnumarkaðsumbætur þarf að setja á oddinn 

  • Efla vinnumarkaðsumgjörð og stöðu ríkissáttasemjara og vinna eftir samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda, m.a. með jöfnun launa á almennum og opinberum vinnumarkaði

2. Tímabært er að endurskoða peninga- og gengisstefnu

  • Endurskoðun snúist um hvernig skapa megi stöðugra og fyrirsjáanlegra efnahagsumhverfi til framtíðar

3. Markmiðum laga um opinber fjármál þarf að fylgja eftir af festu

  • Mikilvægt er að fjármálastefna hins opinbera haldi og hún sé reist á traustum forsendum

4. Ákvarðanataka og aðgerðir í málefnum ferðaþjónustunnar eru nauðsynlegar

  • Ríkisstjórnin taki skýra afstöðu til stýringar, skattlagningar og gjaldtöku og samhæfi stofnanaumgjörð ferðaþjónustunnar

5. Varúðarsjóður stofnaður

  • Góðar aðstæður eru til að byggja upp varúðarsjóð með auðlindatekjum, svo sem arðgreiðslum orkufyrirtækja í eigu ríkissjóðs. Framleiðnivettvangur settur á laggirnar
  • Stjórnin stofni framleiðnivettvang til að koma með tillögur um aukna framleiðni á einstökum sviðum

6. Framleiðnivettvangur settur á laggirnar

  • Stjórnin stofni framleiðnivettvang til að koma með tillögur um aukna framleiðni á einstökum sviðum

7. Afnám fjármagnshafta við réttar aðstæður

  • Losa enn frekar um höft á útflæði á næstunni að því marki sem kostur er með hliðsjón af áætlun stjórnvalda um losun hafta og stöðu aflandskróna sem bundnar eru inni í hagkerfinu. 

8. Viðbótarheimild til erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða

  • Bæta við heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis fjárhæð sem nýtanleg væri hvenær sem er innan ársins

9. Aukið aðhald í rekstri hins opinbera

  • Opinber fjármál styðja ekki nægilega við hagstjórn við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðarbúskapnum.

Greinargerðin var kynnt ráðherranefnd um efnahagsmál þann 6. febrúar. Samhljómur er við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og mun hún liggja til grundvallar áframhaldandi vinnu í ráðuneytunum.

Til baka Senda grein