Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. maí 2023 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp á Degi stafrænnar mannvirkjagerðar

Ávarp flutt á ráðstefnu á vegum BIM Ísland – Dagur stafrænnar mannvirkjagerðar

Góðir gestir.

Það er mér mikil ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á Degi stafrænnar mannvirkjagerðar, sem samtökin BIM Ísland hafa haft frumkvæði að. BIM stendur fyrir Building Information Modeling eins og þið vitið, en á íslensku tölum við gjarnan um upplýsingalíkön mannvirkja. Þegar þrívítt líkan af mannvirki er sett upp á stafrænan hátt í tölvu getur BIM aðferðafræðin nýst gríðarlega vel á öllum stigum mannvirkjagerðarinnar, og jafnframt í rekstri mannvirkisins allan líftíma þess. Málefnið sem þið munuð ræða í dag er því í hæsta máta mikilvægt.

En áður en við förum nánar út í fyrirbærið stafræn mannvirkjagerð tel ég rétt að segja í upphafi nokkur orð um innviðaráðuneytið, sem var stofnað fyrir rúmu ári síðan, en það markar nokkur tímamót í sögu íslenskrar stjórnsýslu.

Nú eru í fyrsta sinn undir einu ráðuneyti þeir þættir sem snúa að samgöngumálum, byggðamálum, og sveitarstjórnarmálum auk nýrra málaflokka húsnæðismála, skipulagsmála og mannvirkjamála og ábyrgð á þeim rafrænu grunnskrám sem þeim tengjast, þar með talið fasteignamat og brunabótamat.

Sú yfirsýn sem náðst hefur með nýju innviðaráðuneyti felur í sér miklar breytingar og gerir okkur kleift að samhæfa þessa málaflokka, einfalda ferla og gera okkur betur grein fyrir þörfum íbúa um land allt með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

Þetta er að sjálfsögðu gert í nánu samstarfi við sveitarfélög þar sem ábyrgð á framkvæmd margra þessara málaflokka, svo sem gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaga og stjórnsýsla skipulags- og byggingarmála, er að mestu leyti í héraði.

Lykilatriði í einföldun og straumlínulögun stjórnsýslu þessara málaflokka er að okkur auðnist að nýta þá gríðarlegu byltingu sem orðið hefur í tölvu- og upplýsingatækni undanfarna áratugi. 

Stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar leggur einmitt mjög ríka áherslu á nýtingu stafrænnar tækni á öllum sviðum atvinnulífsins, þ.e. stafræn þróun í húsnæðismálum, skipulagsmálum og mannvirkjamálum. Og vinnan að stafrænni framtíð þessara málaflokka er á fullri ferð.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, vinnur ötullega að stafrænni þróun á mörgum vígstöðvum. Fyrir tæpu ári síðan voru verkefni sem varða rafræna skráningu fasteigna flutt frá Þjóðskrá Íslands til HMS og unnið er hratt að þróun fasteignaskrár HMS. 

Ætlunin er að sú rafræna gátt fái margþætt hlutverk, meðal annars að þangað skuli skila öllum hönnunargögnum mannvirkja þegar sótt er um byggingarleyfi, svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu er ætlunin að kerfið muni geta tekið við BIM gögnum en slík virkni krefst samráðs við ykkur BIM sérfræðingana.

Annað dæmi má nefna Skipulagsgátt, sem er landfræðileg samráðsgátt um skipulag, umhverfismat og framkvæmdir, en sú gátt var sett í loftið þann 1. maí, fyrir 11 dögum síðan.

Þessu tengt má nefna að upplýsingar um húsnæðismarkað eru nú aðgengilegar á hverjum tíma þar sem hægt er að fylgjast með framvindu íbúða í byggingu. Ákkurat núna er t.d. 7.920 íbúð í byggingu og byggingaáform um land allt en 914 íbúðum er lokið á árinu. Og tölurnar breytast dag frá degi.

Þá er í ríkisstjórnarsáttmálanum lögð áhersla á endurskoðun regluverks mannvirkjamála, með það fyrir augum að innleiða stafræna stjórnsýslu í auknum mæli og einfalda umgjörð um byggingariðnaðinn og starfshópur um það verkefni hefur hafið störf. 

Jafnframt get ég nefnt að innviðaráðuneytið gaf út Grænbók um húsnæðismál í síðasta mánuði þar sem stafrænni þróun er gert hátt undir höfði.

Ég hef hér að framan nefnt nokkur dæmi um stafræna þróun í stjórnsýslu húsnæðis- mannvirkja- og skipulagsmála. Hér í dag munuð þið hins vegar ræða um þau miklu tækifæri sem BIM aðferðafræðin býður byggingariðnaðinum upp á þegar menn hanna, reisa og reka mannvirki.

Þjóðir heims standa frammi fyrir tækifærum en einnig nýjum áskorunum sem fylgja tækniþróun og stafrænni umbreytingu. Stafræn verkfæri eru að verða eitt að mikilvægustu verkfærunum í byggingariðnaði, og hafa þróast hratt og breyst undanfarna áratugi, með tilkomu nýrra hugtaka eins og upplýsingalíkön mannvirkja, gervigreind, vélrænt nám, sýndarveruleiki, viðbótarveruleiki, Vélmennavæðing, Hlutanetið. Þessir þættir hafa skapað nýjan veruleika og ný sóknarfæri í flestum atvinnugreinum.

Þessi tækniþróunin kallar á nýja færni fólks, til að starfa innan mannvirkjagerðar, og mun sí- og endurmenntun verða enn mikilvægari þegar fram í sækir. Að sama skapi er mikilvægt að staldra við og finna leiðir til þess að nýta tæknina, þróa verkferla og auka þekkingu á alla þessa tækni, til að leysa úr læðingi tækifærin og verðmætasköpunina.

Eina áskorun til vil ég nefna við ykkur að lokum: Því hefur víða verið haldið fram að tækniframfarir á sviði tölvu- og upplýsingatækni skili sér ekki eins hratt til byggingariðnaðarins eins og til flestra annarra atvinnugreina. Og að þróun upplýsingatækni og stafrænna lausna innan byggingariðnaðarins sé hlutfallslega hæg. Samtímis benda rannsóknir á að tækifærin liggi einna helst í aukinni notkun stafrænna lausna og tækni, þá til að auka skilvirkni og hagræðingu, spara í kostnaði og efnisnotkun, auka gæði, bæta öryggi og minnka áhættu.

Sú ráðstefna sem þið haldið hér í dag er því mjög mikilvæg að mínu mati. Við verðum að taka höndum saman, efla nýsköpun, þróa nýja tækni og aðferðir svo að við taki tímar sjálfbærni, sjálfvirkni og hagkvæmni í stað sóunar, bæði með tilliti til umhverfissjónarmiða, betri mannvirkja og bættra verkferla. Ég óska ykkur alls velfarnaðar í störfum ykkar og vona að okkur takist í sameiningu að efla notkun stafrænna lausna við hönnun, uppbyggingu og rekstur mannvirkja, með kröfur framtíðarinnar að leiðarljósi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum