Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2005 Forsætisráðuneytið

Fyrirkomulag sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf.

English version

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur að undanförnu unnið að undirbúningi við sölu á hlutabréfum í Landssíma Íslands (Símanum) í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin og ráðherranefnd um einkavæðingu hafa markað.

Ákveðið hefur verið að selja eftirstandandi hlut ríkisins (98,8%) í einu lagi einum hóp kjölfestufjárfesta. Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta verður háð eftirfarandi skilyrðum:

  • að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, eignist stærri hlut í Símanum, eða í félagi sem stofnað er til kaupa á hlut í ríkisins í Símanum, en 45%, beint eða óbeint, fram að skráningu félagsins á Aðallista í Kauphöll.
  • að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni slíkri sölu.
  • að Síminn verði skráður á Aðallista Kauphallar hér á landi að uppfylltum skilyrðum Kauphallarinnar samhliða sölu til almennings og annarra fjárfesta, og innlausnarrétti verði ekki beitt gagnvart núverandi hluthöfum í Símanum (1,2%) fram að skráningu félagsins á Aðallista Kauphallar.
  • að kjölfestufjárfestir fari ekki með eignaraðild, beina eða óbeina, í fyrirtækjum í samkeppni við Símann hér á landi.

Allir áhugasamir aðilar, sem hafa til þess getu, nægjanlega reynslu og fjárhagslegan styrk til að ljúka kaupum, koma til greina sem kaupendur. Upplýsingar um gang söluferlisins verða gefnar út með reglulegu millibili, en eðli máls samkvæmt verða ákveðnar upplýsingar varðandi söluferlið bundnar trúnaði, sem og til að viðhalda forsendum til samkeppni.

Stefnt er að því að ljúka söluferlinu í júlí n.k. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu áskilur sér rétt til þess að hafna öllum tilboðum. Ráðherranefnd um einkavæðingu tekur ákvörðun um við hvaða aðila verður samið, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Við mat á tilboðum verður meðal annars horft til verðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans, starfsmenn fyrirtækisins og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin, og annarra viðeigandi þátta.

Ráðgjafar- og fjármálafyrirtækið Morgan Stanley í Lundúnum er framkvæmdanefnd um einkavæðingu til ráðgjafar við undirbúning sölu.

Reykjavík, 4. apríl 2005
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum