Hoppa yfir valmynd

Áhersluverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Náttúruvá

Helstu áherslumál ráðuneytisins eru: 

  • Uppbygging ofanflóðavarna, gerð hættumats, og úttekt á ofanflóðahættu á atvinnusvæðum.  
  • Gerð heildstæðrar stefnu um náttúruvá.  
  • Stuðningur við frekari grunnrannsóknir og kortlagningu náttúruþátta sem undirbyggja mat á náttúruvá.  
  • Endurskoðun og styrking vöktunar og mælakerfa á málefnasviði ráðuneytisins.  
  • Verkefni til að betrumbæta hættu- og áhættumat í samvinnu við sveitarfélög og aðra hagaðila, t.a.m. með hliðsjón af notkun loftslagssviðsmynda fyrir Ísland.

Náttúruvá er mikilvægur málaflokkur sem þarfnast öflugrar og heildstæðrar stefnumótunar. Þekking á umhverfinu er undirstaða réttra viðbragða við náttúruvá. Forsendur hafa þó verið að breytast með breyttu byggðamynstri og landnýtingu, aukinni ferðaþjónustu og áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruvá. Frá 2010 hefur hver náttúruvár atburðurinn rekið annan og þeir hafa sýnt fram á mikilvægi þekkingar, vöktunar og réttra viðbragða til að draga úr tjóni vegna náttúruvár. Á árinu var vinna stjórnvalda við náttúruvá grannskoðuð af starfshóp um náttúruvá, stöðumat og áskoranir á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár.

Áfram hefur verið hugað markvisst að uppbyggingu ofanflóðavarna. Lokið hefur verið uppbyggingu varna á 6 af 15 þéttbýlisstöðum þar sem íbúðarhús eru á þeim svæðum þar sem þörf er metin fyrir varanlegar aðgerðir til þess að minnka hættuna. Stefnt er að því að uppbyggingu varna á þessum þéttbýlisstöðum verði lokið fyrir árslok 2033.

Jafnframt er stöðugt unnið að bættri vöktun á þeim þáttum sem hægt er að nýta til að spá fyrir um náttúruvá og uppbyggingu innviða sem varða þessa vöktun. Á árinu 2022 má helst nefna áframhaldandi uppbyggingu mælakerfis á Seyðisfirði, uppsetning veðurstöðvar á Björgum í Kinn, uppsetning veðursjár á Hrauni á Skaga og vinna hófst við uppsetningu veðursjár á Bjólfi. Sjávarborðsmælir var settur upp í Hafnarfirði og í Djúpavogshöfn. Unnið er að ofanflóðahættumati og endurskoðun hættumats þar sem reist hafa verið varnarvirki, en þar eru niðurstöður úr rannsóknarverkefninu um líkanreikninga á snjóflóðum sem lenda á varnarvirkjum nýttar. Einnig er  unnið að könnun á ofanflóðahættu í dreifbýli og hættumati á skíðasvæðum. Þá er vinna yfirstandandi vegna úttektar á ofanflóðahættu á atvinnusvæðum og skýrsla um efnið er væntanleg á árinu 2023. 

Hættumat vegna vatns- og sjávarflóða og eldgosa gengur samkvæmt áætlun. Á árinu komu m.a. út skýrslur um áhættumat vegna jökulhlaupa frá Sólheimajökli, um tillögur að áhættuviðmiðum vegna vatnsflóða, um mat á endurkomutíma sjávarflóða fyrir allt landið og um aftaka úrkomu. Unnið er að því að efla samstarf um gerð hættu- og áhættumats með sveitarfélögum á vettvangi Ofanflóðanefndar og gegnum tilraunaverkefni tengt áhrifum loftslagsbreytinga í Byggðaáætlun. 

Starfshópar

Starfshópur um náttúruvá, stöðumat og áskoranir á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár vann að skýrslu sem kynna á snemma árs 2023.  

Stýrihópur vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum hóf störf og hélt m.a. vinnustofu með hagaðilum um náttúruvá til að undirbyggja vinnu sína við tillögu að efnisþáttum og skipulagi fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum sem á að ljúka störfum haustið 2023.

Framkvæmdir fjármagnaðar af Ofanflóðasjóð á árinu:

Á Eskifirði              

  • Unnið var við varnir við Lambeyrará. Voru þær að fullu virkar í árslok 2022 en unnið verður að frágangi svæðisins á árinu 2023.

Í Neskaupstað    

  • Unnið var við varnir við Urðarbotna og Sniðgil. Vinnu lauk á árinu 2022. 

Á Patreksfirði      

  • Unnið var við varnir við Urði, Hóla og Mýrar. Voru þær að fullu virkar í árslok 2022 og gert er ráð fyrir að frágangi verktaka á svæðinu verði lokið á árinu 2023. 

Á Siglufirði                  

  • Unnið var að 3. áfanga framkvæmda við upptakastoðvirki í Hafnarhyrnu. Áætluð verklok eru 2024. 

Á Seyðisfirði 

  • Framkvæmdir við varnargarða (Aldan og Bakkahverfi) hófust á árinu 2022 og eru áætluð verklok 2027. 

Á Flateyri             

  • Fyrsta áfanga á uppsetningu snjógirðinga á Eyrarfjalli er lokið að hluta. Tilraunaáfangi til að meta ávinning af varnaraðgerðinni. Hönnun endurbættra varnargarða líkur 2023. 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum