Hoppa yfir valmynd

Áhersluverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Náttúruvernd

Helstu áherslur ráðuneytisins eru: 

  • Að bæta ástand áfangastaða innan náttúruverndarsvæða með það að markmiði að 95% áfangastaða innan náttúruverndarsvæða séu innan þolmarka fyrir árslok 2027. 
  • Að vinna að gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði. 
  • Að efla líffræðilega fjölbreytni. 

Eitt af mikilvægustu verkefnum allra þjóða á sviði náttúruverndar er að tryggja verndun og viðhald líffræðilegrar fjölbreytni. Á fimmtánda fundi samningsins um líffræðilega fjölbreytni (CBD) sem haldinn var í desember í Montreal í Kanada var mótuð ný heimsstefna fyrir líffræðilega fjölbreytni og aðgerðir til þess að vernda, endurheimta og viðhalda henni. Stefnan inniheldur fimm takmörk til ársins 2030 og 21 markmið sem aðildarríki samningsins samþykktu.  Vinnu við gerð grænbókar fyrir líffræðilega fjölbreytni á Íslandi lauk snemma árs og var hún sett í umsagnarferli á vordögum 2022. Framundan er vinna við stefnumótun um verndun líffræðilegrar fjölbreytni þar sem meðal annars verður byggt á niðurstöðum CBD fundarins. Vinna við gerð stefnumótunarinnar er í samræmi við áherslu ríkisstjórnarinnar um að  á kjörtímabilinu eigi að ljúka við endurskoðun á stefnu um líffræðilega fjölbreytni.    

Fimmta úthlutun fjármagns í tengslum við landsáætlun um innviði var í lok mars árið 2022 og leysti hún eldri áætlun af hólmi. Þannig var haldið áfram að takast á við mikla og uppsafnaða þörf fyrir innviðauppbyggingu á svæðum sem búa við álag af völdum ferðamennsku. Ráðstafa á rúmlega 2764 m.kr. vegna afmarkaðra innviðaverkefna á tímabilinu 2022-2024.  

Málefni menningarminja, þ.m.t. byggingararfs, fluttust til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis með forsetaúrskurði þann 1. febrúar 2022. Haustið 2022 var lagt fram frumvarp um breytingar á lögum nr. 80/2012 um menningarminjar þar sem lagt var til að breyta viðmiðunarári húsafriðunar á þann hátt að svokölluð 100 ára regla yrði afnumin varðand hús og framvegis miðað við ártalið 1923. Breytingin varð að lögum þann 1. janúar 2023.   

Starfshópar 

Ýmsir starfshópar voru að störfum á árinu. Starfshópur um stöðu og áskoranir á friðlýstum svæðum skilaði skýrslu til ráðherra í lok árs. Skýrsla hópsins varpaði ljósi á helstu áskoranir sem fengist er við á friðlýstum svæðum og möguleg tækifæri til úrbóta. 

Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði - staðan og áskoranir  

Stýrihópur um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar og tengsl við byggðaþróun hóf störf á árinu. Unnið er að því að greina verndargildi svæðisins og meta áhrif þess á samfélagið. Hópurinn mun vinna að tillögu um framtíð verndarsvæðis Breiðafjarðar með það markmið að treysta vernd svæðisins og efla byggð og á að skila tillögum sínum til ráðherra sumarið 2023.     

Verkefnishópur um mögulega aðild Snæfellsnes að verkefni Mennta-, vísinda og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Maður og lífheimur, vann greiningu á því hvort að svæðið gæti sótt um aðild að verkefninu. Á svæðum sem taka þátt í verkefninu er markvisst unnið að náttúruvernd, auk þess sem náttúru- og félagsvísindi eru tengd við efnahagsmál, menntun og rannsóknir. Að mati hópsins getur Snæfellsnes orðið MAB svæði og styðja sveitarfélögin á Snæfellsnesi verkefnið.   

Þá var vinnuhópur settur á laggirnar til að vinna að stefnumótun um gönguleiðir og þá umgjörð sem þeim þarf að skapa. Hópurinn vann m.a. að tilraunaverkefni um ferðamannaleiðina Laugaveg frá Landmannalaugum til Þórsmerkur. Einnig vann hópurinn að stefnumótandi tillögum að umbótum á löggjöf varðandi ferðamannaleiðir, fyrirkomulag í skipulagi, formlega umsjón, erfiðleikastig og þjónustu- og öryggisstig og öðrum atriðum sem lúta að þessu viðfangsefni. Hópurinn á að skila tillögum til ráðherra sumarið 2023.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum