Hoppa yfir valmynd

Áhersluverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Orkumál

Helstu áherslur ráðuneytisins eru:

  • Tryggja orku til orkuskipta og framgang þriðju orkuskiptanna, þannig að fullum orkuskiptum verði náð fyrir lok árs 2040 og Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða.
  • Stuðningur við Orkusjóð og breytt hlutverk hans með styrkjakerfi orkuskipta.
  • Tryggja orkuöryggi fyrir alla landsmenn og aðgengi að grænni orku sem aflað er á sjálfbæran hátt. Jafnt aðgengi að orku á landsvísu.
  • Áhersla á græna atvinnuuppbyggingu og grænar fjárfestingar sem gera Ísland að vöggu nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Bætt orkunýting heimila og fyrirtækja.
  • Vinna að framgangi allra orkukosta, hefðbundinna sem nýrra.

Orkustefna hefur verið mótuð til ársins 2050 og ber heitið „Sjálfbær orkuframtíð“. Í henni er fjallað um orkuskipti og loftslagsmál, endurnýjanlega orku, orkunýtni, ávinning samfélags og neytenda, náttúruvernd og lágmörkun umhverfisáhrifa, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, trausta og örugga innviði um land allt og öruggt orkuframboð. Í orkustefnu kemur fram að öll nýting orkuauðlinda til framleiðslu raforku, varma eða eldsneytis þurfi að vera með sjálfbærum hætti. Við ákvarðanir um verndun landsvæða eða virkjun orkuauðlinda, sem og uppbyggingu orkukerfisins, verði gætt að jafnvægi milli hinna þriggja vídda sjálfbærrar þróunar; umhverfis, samfélags og efnahags.

Ráðuneytið fékk Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) til að vinna úttekt á stöðu og framtíðarhorfum hitaveitna og nýtingu jarðhitavatns til húshitunar, m.a. vegna frétta á árinu um erfiða stöðu hjá mörgum hitaveitum. ÍSOR skilar skýrslu sinni í maí 2023.

Þá var með lagabreytingu gerð breyting á fyrirkomulagi styrkveitinga fyrir umhverfisvæna orkuöflun til húshitunar. Taka breytingarnar mið af því að aukin notkun á búnaði til umhverfisvænnar orkuöflunar, svo sem varmadælu, sé sameiginlegt hagsmunamál notenda og ríkisins.

Starfshópar

Ýmsir starfshópar voru að störfum á árinu.

Ráðherra skipaði starfshóp um gerð grænbókar um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum. Starfshópurinn fékk það verkefni að vinna úttekt á stöðu og áskorunum í orkumálunum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmiðið var að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga á sviði orkumála á aðgengilegu formi til upplýsinga fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning.

Staða og áskoranir í orkumálum 

Starfshópur um orkumál á Vestfjörðum. Starfshópurinn var fenginn til að greina stöðuna heildstætt og fara yfir mögulegar lausnir til úrbóta í raforkumálum og lagði hann í tillögum sínum áherslu á að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins.

Skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum

Breyting var gerð á raforkulögum á vorþingi 2021 með það að markmiði að tryggja raforkuöryggi. Starfshópur var skipaður til að vinna tillögu að reglugerð um raforkuöryggi og átti hann m.a. að skoða valdheimildir opinberra aðila, úrræði til að tryggja fullnægjandi raforkuöryggi og veita yfirsýn á heildsölumarkaði raforku. Starfshópurinn skilaði ráðherra tillögum í júní 2022.

Vindmyllur

Fram kemur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að sérlög verði sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera og skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sumarið 2022 starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku. Var starfshópnum m.a. falið að skoða lagaumhverfi vindorkuvera og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum. Starfshópurinn skilar áfangaskýrslu í maí 2023.

Þá skipaði ráðherra starfshóp um vindorku á hafi, til að kanna möguleikann á nýtingu vindorku á hafi í lögsögu Íslands. Var þetta gert í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að marka skuli stefnu um vindorkuver á hafi. Starfshópurinn skilar ráðherra tillögum sínum í apríl 2023.

Orkusjóður

Mikil eftirspurn hefur verið eftir styrkjum úr Orkusjóði,sem hefur verið að styrkjast ár frá ári. Alls bárust um 200 umsóknir að upphæð 4 milljarða kr. vegna úthlutunar ársins 2022 og samtals fengu 137 verkefni styrk úr Orkusjóði það ár og nam heildarúthlutun styrkja 1,1 milljarði kr. Verkefnin dreifast á alla auglýsta flokka og eru styrkþegar í öllum landshlutum. Styrkveitingar Orkusjóðs eru hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og orkuskiptum. Árið 2022 gat sjóðurinn í fyrsta sinn veitt umtalsverð styrkvilyrði til framleiðslu rafeldsneytis og nýtingu þess í stærri samgöngu- og flutningstækjum. Einnig eru verkefni varðandi varmadælur og nýtingu jarðvarma nú styrkhæf. Margvísleg verkefni tengd framleiðslugreinum fá styrki og eru flestir styrkirnir til uppsetningar á hleðslustöðvum við gististaði og fjölsótta samkomustaði. Kynning á vegum Orkusjóðs var haldin um haustið þar sem styrkþegar sögðu frá verkefnum sínum í formi örfyrirlestra.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum